150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:42]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir prýðisræðu og yfirgripsmikla þar sem var farið í ýmsa þætti samgangna. Það vakti athygli mína, þar sem við erum nú bæði landsbyggðarþingmenn, að vetraraðstæður komu mikið fram í ræðunni eins og vetrarþjónusta og annað slíkt. Mér hefur í gegnum tíðina þótt að ekki sé nógu mikil áhersla lögð á jarðgöng í samgönguáætlunum. Það er nú aðeins að færast í vöxt og oft tekin skemmri skírn í þeim efnum og farið í vegaframkvæmd af því að hún er ódýrari vegna þess að það er minna mál en að gera jarðgöng. En ef við reiknum okkur eitthvað fram í tímann, fimm, tíu, tuttugu ár, þá er hún orðin dýrari bara vegna þess að vetrarþjónustan og viðhaldið er miklu dýrara.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Hvernig getum við snúið þeirri þróun við og farið að reikna þetta út til lengri tíma? Eins er það þetta í sambandi við rafvæðingu flugs, móttöku skemmtiferðaskipa og annað slíkt, þá móttöku skemmtiferðaskipa upp á að geta keyrt rafmagn í staðinn fyrir ljósavélar í höfn og eins með rafvæðingu flugs. Ég kem kannski betur inn á þær spurningar í seinna andsvarinu þannig að ég læt þetta duga núna.