150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:47]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið. Auðvitað er það á valdi okkar stjórnmálamanna að taka ákvarðanir varðandi jarðgöng. Það hefur bara sýnt sig, eins og t.d. með jarðgöngin undir Hvalfjörð, að þau borguðu sig sjálf á endanum af því að þar var gjaldtaka. Það er nokkuð sem ég sé fyrir mér í frekari framkvæmdum víða um land og hef ég oft talað um það, t.d. varðandi títtnefnda leið um Gufudalssveit og þar um slóðir. Nú liggur fyrir þingsályktunartillaga um Tröllaskagagöng þannig að það eru svolítið spennandi tímar fram undan.

En aðeins að rafvæðingu flugs. Við í atvinnuveganefnd fórum í heimsókn til Icelandair í fyrra og þá spurði ég þá út í þessi mál. Þeir sögðu að vinna varðandi einhvers konar rafflug eða rafmagnsmótora væri í örri þróun. Í tengslum við þingsályktunartillögu Samfylkingarinnar hljóta þingmenn hennar að hafa aflað frekari upplýsinga um þessi mál. Hv. þingmaður talaði um fimm til tíu ár. Hefur hv. þingmaður fengið upplýsingar um að það sé svo stutt í þetta?