150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:48]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Já, það er nefnilega svo merkilegt að þessi vinna er í fullum gangi í nágrannalöndum okkar, hjá frændþjóðum okkar, svo ég noti það orð. Í Noregi og Svíþjóð er gríðarlega hröð þróun og hafa þau sett sér þá stefnu að fyrir árið 2040 verði allt innanlandsflug orðið rafvætt. Þangað stefna þau hraðbyri, að hluta til að ég tel vegna þess að þau hafa sett sér þetta markmið, vinna að því og setja fjármuni í það. Einn af þeim aðilum sem vinna að þessu markmiði með þeim er Nordic Innovation, sem er stofnun undir Norðurlandaráði sem við erum aðili að. Við ættum mjög greiða leið að því að taka þátt í þeirri vinnu með þeim í gegnum Norðurlandaráð og auðvitað í gegnum okkar góða samstarf við Norðurlöndin. Ég hef þá trú að þetta muni takast. Kannski hef ég rangt fyrir mér, en við komumst alla vega ekki neitt ef við stefnum ekki þangað.