150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:02]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég þakka honum fyrir að hafa sent mér þessa skýrslu sem ég er aðeins búinn að glugga í en hef nú ekki haft tíma til að fara nákvæmlega yfir hana.

Ég vil þó benda hv. þingmanni á að til eru fleiri rannsóknir varðandi verkefnið og þar vil ég nefna nýlega rannsókn sem nemandi við Háskóla Íslands gerði og Ragnar Árnason prófessor var leiðbeinandi. Þar var komist að öndverðri niðurstöðu varðandi borgarlínuverkefnið. Þannig að það eru mismunandi skoðanir á því máli.

Ég hef lagt áherslu á það í þessu máli, og hv. þingmaður veit það og við erum samherjar í því, að það sé ráðdeildarsemi í fjármálum ríkissjóðs. Margt í verkefninu er óljóst sem gerir það að verkum að það er mjög erfitt, í fyrsta lagi frá fjárhagslegum sjónarhóli ríkissjóðs, að samþykkja samkomulagið sem búið er að leggja fyrir þegar ekki liggur fyrir með hvaða hætti verður t.d. tekið á, eins og ég nefndi í andsvari við hv. þingmann, kostnaði vegna flutnings á húsnæði og rannsóknarstofnunum ríkisins á Keldnalandi — og það er bara eitt atriði — en það gætu verið einhverjir milljarðar.

Það eru fleiri slík atriði sem eru óljós þegar kemur að kostnaði við verkefnið. Frá mínum bæjardyrum séð er ekki forsvaranlegt að samþykkja eitthvert verkefni sem getur falið í sér meiri kostnað fyrir ríkissjóð. Ég nefndi sérstaklega að í heildarkostnaðarmatinu er frávik upp á 7 milljarða. Það er ekkert talað um hver á að greiða það. Á ríkissjóður að greiða það samkvæmt eignarhlutdeild sinni sem er 75%,(Forseti hringir.) bara svo dæmi sé tekið? Innlegg mitt í umræðuna hefur verið að ég tel ekki forsvaranlegt að ríkissjóður sé að skuldbinda sig svona(Forseti hringir.) fram í tímann þegar þessir óvissuþættir eru til staðar og í ljósi stöðunnar (Forseti hringir.)sem við erum að glíma við hvað varðar afkomu ríkissjóðs.