150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:25]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni hvað það varðar. Vandamálið með fjármögnun er tvímælalaust hér á okkar borði en að sjálfsögðu í samstarfi við sveitarfélagið á svæðinu því að aðalskipulagið er gert þar og við erum ekki að fara að taka aðalskipulagsvaldið af sveitarfélögunum til þess að dekka hentisemi okkar. Við viljum að sjálfsögðu fá greiningar og ábatagreiningar o.s.frv. til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun um fjárveitingar fyrir eina eða aðra leið.

Það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, að dýrari kostur getur til lengri tíma skilað betri ábata. En það er kannski ekki beint aðgengilegt hvort endilega sé munur á innri og ytri leið hvað það varðar nema að ytri leiðin getur haft áhrif á fleira, eins og ég rakti í fyrra andsvari, varðandi umferðarflæði, sem er kannski erfiðara að leggja tölulegt mat á. Þá gerir maður ráð fyrir því að umferðin sem fer í ytri leiðina flæði meira yfir á Sæbraut í stað þess að fara inn á Miklubraut aftur sem felur í sér ákveðinn tímasparnað sem er reiknaður inn í, eins og t.d. í skýrslunni um uppbyggingu á höfuðborgarsvæðinu með borgarlínunni og þess háttar. Það væri gaman að sjá þessar greiningar. Ég hef ekki séð skýrslurnar um þær nákvæmlega, ég man ekki eftir að þingið hafi fengið þær í hendurnar. En ef við erum með það í höndunum og ef ábatinn er greinilegur ætti að vera frekar auðvelt að fjármagna það. Einhverra hluta vegna hefur það, eins og hv. þingmaður segir, alla vega ekki verið gert í 20 ár, sem er sorglegt.