150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:41]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil aðeins koma inn á umhverfismat þegar kemur að vegaframkvæmdum og þá staðreynd að ósamræmis gætir í kröfum um umhverfismat eftir því hvaða framkvæmdir eiga við. Mun ég víkja að því nánar á eftir. Ég vil nefna sérstaklega Kjalveg, en nú eru áform Vegagerðarinnar að ráðast í uppbyggingu á Kjalvegi, 17 km kafla. Vegur þessi er afar slæmur malarvegur, eins og þeir þekkja sem um hann hafa farið. Hann er nánast slóði á köflum, niðurgrafinn og yfirborðið afar gróft. Lagfæringarnar eru því mjög mikilvægar og miða fyrst og fremst að því að hækka vegyfirborðið þannig að vegurinn virki ekki sem árfarvegur á veturna og í leysingum á vorin og verði þá fyrir tilheyrandi skemmdum. En uppbygging þessa vegar er afar brýn samgöngubót fyrir svæðið. Vegurinn er fjölsóttur á sumrin þrátt fyrir að vera í slæmu ástandi. Skipulagsstofnun hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að framkvæma skuli umhverfismat á þessum vegabótum sem fyrirhugað er að ráðast í á vegi sem þegar er til staðar. Það er nefnilega athyglisvert í þessu máli að ekki er um nýframkvæmd að ræða. Eins og við þekkjum hefur vegurinn um Kjöl verið þar um áratugaskeið. Sveitarfélagið Bláskógabyggð hefur mótmælt því að þessar vegabætur þurfi að fara í umhverfismat vegna þess að það tefur verkið verulega og veldur að sjálfsögðu auknum kostnaði. Það lítur jafnvel út fyrir að þessum mikilvægu framkvæmdum verði slegið á frest vegna þessa. Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að það er alveg ótækt að ítrekað skuli nauðsynlegar vegabætur vera settar í nokkurs konar gíslingu af þessu tagi þegar kemur að umhverfismati.

Ég segi þetta hér vegna þess að ég get nefnt annan veg sem fór í endurbætur og tókst mjög vel, þ.e. vegarkaflann við Þingvöll, Þingvallaveg. Síðastliðið haust var vígður nýr og uppbyggður vegur. Sá vegur liggur um viðkvæmt svæði og gamlan birkiskóg. Þingvallavegurinn er frá árinu 1974. Hann var endurbyggður í samræmi við umferð og umferðaröryggi. Þingvallavegur þurfti ekki að fara í umhverfismat, en hins vegar þarf Kjalvegur að fara í umhverfismat. Höfum í huga að Þingvallavegur er innan þjóðgarðsins á Þingvöllum og eins og við þekkjum þá er þjóðgarðurinn á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna síðan árið 2004. Þjóðgarðurinn á Þingvöllum nýtur sérstakrar verndar samkvæmt lögum um hann. Við þekkjum að vistkerfið þar er viðkvæmt, en Skipulagsstofnun komst að þeirri niðurstöðu að endurbætur á Þingvallavegi væru ekki líklegar til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif. Landvernd kærði framkvæmdaleyfi Vegagerðarinnar en úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála féllst ekki á málsrök Landverndar og þurftu framkvæmdir ekki að fara í umhverfismat.

Hér sjáum við tvö verkefni sem eru á svipuðum stað en þar er algjört ósamræmi um ákvarðanir Skipulagsstofnunar um matsskyldu og umhverfismat. Hér er greinilega þörf á að bæta málsmeðferðina og koma í veg fyrir svona misræmi og að menn geti treyst því að staðið sé rétt og eðlilega að ákvörðunum í þessum efnum, sem er greinilegt að var ekki hvað varðar Kjalveg, ef við berum það saman. Ég vildi nefna þetta hér vegna þess að þetta er mjög mikilvægur þáttur í öllum vegaframkvæmdum á Íslandi.