150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Eins og ég nefndi hérna áðan er svolítið erfitt við það að eiga þegar ræðutíminn er ekki nema fimm mínútur og margt að fara yfir. Ég á t.d. alveg eftir að fjalla um áformuð veggjöld. Ég á eftir að fara yfir, eins og ég var búinn að lofa, nefndarálitin og ekki hvað síst þær umfangsmiklu endurbætur sem voru þó gerðar á málinu undir forystu formanns nefndarinnar. Ég á eftir að fjalla um vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu og landinu og ég á eftir að fjalla um Sundabraut sérstaklega. Og ég hef ekkert talað um hafnir. Það er því hætt við að ég nái ekki að klára yfirferðina í þessari ræðu.

En ég var komin að kaflanum um almenningssamgöngur og byrjaður að fjalla um borgarlínu og skilgreiningu á því fyrirbæri. Ég talaði út frá áformum sem lýst er í nýju plaggi frá verkefnastofu borgarlínu um fyrsta áfanga þess verkefnis. Í því plaggi kemur fram að tilgangur verkefnisins sé ekki hvað síst sá að ráðast í neyslustýringu, jafnvel að þvinga fólk, í bland við hvata, til að breyta venjum sínum, eða eins og það er orðað hér, að breyta ferðavenjum innan borgarinnar. Og það eru auðvitað nokkur tíðindi að Sjálfstæðisflokkurinn sé farinn að beita sér fyrir neyslustýringu en það kemur kannski ekki á óvart miðað við margt sem við höfum séð gerast þar að undanförnu. Ég tala ekki um nú þegar flokkurinn er farinn að beita sér fyrir því að fjármagna kosningaloforð Samfylkingarinnar í Reykjavík. En í þessu plaggi, í kafla 2 sem ber heitið Hvað er borgarlínan? segir, með leyfi forseta:

„Borgarlína er grundvöllur þess að sveitarfélögin geti þétt byggð í miðkjörnum og við línuna og vaxið án þess að brjóta nýtt land undir byggð utan skilgreindra vaxtarmarka.“

Með öðrum orðum er hér ekki aðeins um að ræða neyslustýringu hvað varðar samgöngumáta heldur er þetta víst grundvallaratriði, mikilvægur liður, í þéttingarstefnunni svokölluðu, þéttingu byggðar sem getur auðvitað átt vel við í sumum tilvikum en hefur verið útfærð á hreint út sagt stórundarlegan hátt og mjög skaðlegan hér í Reykjavík. En nú á þetta að haldast í hendur, þessi galna þéttingarstefna og þessi galna borgarlína. Borgarlínan er notuð sem rök fyrir því að þéttingin þurfi að halda áfram og þéttingin sem rök fyrir því að borgarlínan þurfi að koma til. Svona virkar kerfið, herra forseti. Ef þetta fer hér í gegn hefur því verið búin til þessi endalausa hringrás sem ekki sér fyrir endann á. Við höfum ekki hugmynd um hvernig og hvenær þetta allt saman klárast. Þetta er til a.m.k. 15 ára en menn geta rétt ímyndað sér hvort ekki verði mætt að 15 árum liðnum og sagt: Það er búið að leggja svo mikið í þetta, byggja svo mikið upp að nú getum við ekki látið staðar numið. Nú þarf að bæta í þessa fjárfestingu. Svo ekki sé minnst á rekstrarkostnaðinn en einhverra hluta vegna virðist hann algerlega gleymast í þeim skjölum sem lögð eru til grundvallar í samgönguáætluninni sem við erum að ræða hér.

En þá aftur að eðli borgarlínu og kaflanum Hvað er borgarlínan? Þar kemur fram að strætisvagnar á þessari línu muni fá forgang á umferðarljósum. Umferðarljós í Reykjavík hafa alllengi verið rædd án þess að gerðar hafi verið þær úrbætur á ljósastýringu sem virðast augljósar. En vísir menn hafa bent á að með því að laga ljósastýringu mætti draga mjög verulega úr umferðarteppum í borginni. Hér á sem sagt að taka upp þessa nýju línu sem fær forgang á umferðarljósum. Og hvað þýðir það, herra forseti? Það þýðir að ljósastýring riðlast að öðru leyti fullkomlega því að þegar borgarlínan nálgast kemur rautt á alla hina til að hleypa borgarlínunni í gegn. Þetta verður í raun eins og þjóðhöfðingjar erlendra ríkja væru á stöðugri ferð um borgina alla daga og stöðugt verið að stoppa aðra umferð. Hvernig ætla menn þá að bjarga ljósastýringunni þegar …

Herra forseti. Getur verið að tíminn sé liðinn? Ég hef ekki einu sinni klárað að lýsa eðli borgarlínu. Ég verð þá að biðja hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.