150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að koma inn á lítinn hluta úr kaflanum um flugmál sem er í samgönguáætlun. Í nefndaráliti 2. minni hluta er m.a. fjallað um flugvöllinn í Reykjavík sem borgarstjórnarmeirihlutinn virðist hafa sérstaka andúð á, líkt og einkabílnum í rauninni. Það virðist einhvern veginn ekki nóg með að helst eigi að úthýsa einkabílnum úr borginni. Borgarstjórnarmeirihlutinn vill líka losa sig við flugið. Það hlýtur að vera áhugavert fyrir nágrannasveitarfélögin að velta því fyrir sér hvort þau geti tekið við fleiri fyrirtækjum og þjónustu frá höfuðborginni sem borgin vill ekki að hafi starfsemi á svæði hennar. Mér dettur í hug að það er reyndar mjög góð hafnaraðstaða í Hafnarfirði og uppbygging í Kópavogi. Sjálfsagt er hægt að sinna þeim mannvirkjum víðar í kringum höfuðborgina vilji borgin einnig losa sig við hafnarmannvirkin eða hafnarþjónustuna.

Atlagan sem gerð er að flugvellinum í Reykjavík af hálfu borgarstjórnar er áhyggjuefni. Það ætti að vera ljóst að flugvöllurinn er ekki fara og mun ekkert fara fyrr en í fyrsta lagi ef menn finna sambærilegan kost, eru búnir að vega hann og meta, byggja upp og setja í gang. Það er hins vegar ekki í sjáanlegri framtíð myndi ég halda. Margir hrukku í kút þegar upp komst um áform Reykjavíkurborgar um að fara nú þegar í að leggja vegi eða breyta skipulaginu í kringum flugvöllinn. Samkvæmt áformum borgarinnar átti að höggva í eitt af okkar mikilvægu félögum sem sinna samgöngum, Flugfélagið Erni, og fara beint í gegnum aðstöðubyggingu þess. Sem betur fer náðist að stoppa það í bili en þessum meiri hluta er ekki algerlega treystandi til að hætta ekki að reyna að koma flugvellinum í burtu. Í því sambandi má benda á að menn virðast svífast einskis þegar kemur að því að stoppa bílaumferðina í höfuðborginni og má þar að sjálfsögðu nefna þessi eilífu vandamál með Laugaveginn. Þar virðast stjórnmálamennirnir ætla að gera það sem þeim sýnist, óháð því hvort það hafi áhrif á atvinnulífið og reksturinn. Og það eru dæmi um að rótgróin fyrirtæki hafi farið af Laugaveginum.

Annar minni hluti tekur fram í nefndarálitinu að það sé óforsvaranlegt að gera breytingu á deiliskipulagi án þess að fyrir liggi fullnægjandi rannsókn á áhrifum uppbyggingarinnar á flugöryggi. Þá á ég að sjálfsögðu við þær framkvæmdir sem fyrirhugaðar eru í Skerjafirðinum. Ég held að það sé mjög mikilvægt að verða við þessu eða að vandlega sé hlustað á þessi orð og tryggt með öllum mögulegum ráðum að borgin geti ekki farið offari gegn flugvellinum. Annars held ég að það sé mikilvægt að þingið grípi til mjög róttækra ráða til að koma í veg fyrir að þessi atlaga að flugvellinum nái fram að ganga.

Hér er líka minnst á og í rauninni hvatt til að samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra virki fagráð um flugmál og eftir atvikum Samgöngustofu. Þá er verið að tala um öryggiseftirlit með samgöngumannvirkjum og þá aftur vegna fyrirhugaðrar uppbyggingar í Skerjafirðinum. Allt þetta skiptir miklu máli því að við verðum svolítið vitni að því að það er leynimakk hjá Reykjavíkurborg þegar kemur að flugvellinum. Það virðist eiga að reyna að beita þessari svokölluðu salamítaktík, í leyni þó, með því að taka út búta og búta, búa til skipulag sem á helst ekki að vera uppi á borðinu og reyna að koma málunum undir borðið í gegnum kerfið allt saman. Við hljótum því að gjalda varhuga við því að þau vinnubrögð séu notuð.

Menn verða líka að átta sig á því hvers konar gríðarleg fjárfesting það er verði farið í þá vegferð að byggja flugvöll fyrir innanlandsflug á öðrum stað. Verði farið í þær flugvallarbreytingar mun það kosta einhverja tugi eða hundruð milljarða þegar upp er staðið og það þarf engum að detta í hug að Reykjavíkurborg ætli sér að greiða þann kostnað sem af því hlýst að hrekja flugvöllinn í burtu. Á sama tíma eru menn í raun að leggja til tékka sem ríkissjóður á að hafa opinn fyrir þessa borgarlínu.

Virðulegur forseti. Það er að mörgu að hyggja þegar við horfum á þessi samgöngumál. Ræðutími minn er búinn og ég óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.