150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:35]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Ég var í fyrri ræðu að fjalla um grein eftir umferðarverkfræðing. Út af þessum skamma ræðutíma, sem er bara fimm mínútur í þessari umferð, gafst mér ekki tími til að fara eins rækilega ofan í hana og ég hefði gjarnan viljað. En ég var kominn þar að að innsti kjarninn í þessari grein er að ef það markmið liggur fyrir að gera sérstakt átak í almenningssamgöngum þá bendir höfundur greinarinnar, Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur, á leið sem hann telur að kosti ekki nema nokkra milljarða, eins og hann orðar það. Ekki nema nokkra milljarða. Og þannig megi spara, herra forseti — sem er ekki ókunnugur ríkisfjármálum — nokkra tugi milljarða án þess að það komi að ráði niður á þjónustu Strætós. Er það ekki umræðuvert ef hægt er, að dómi sérfræðinga með erlenda menntun að baki, að ná mikilvægu markmiði í samgöngumálum — að efla almenningssamgöngur og gefa fólki kost á því að komast með ódýrum hætti á milli borgarhluta — fyrir nokkra milljarða í staðinn fyrir að verja til þess tugum milljarða? Ríkisstjórnin áformar að verja 50 milljörðum í verkefni sem er ekki einu sinni almennilega skilgreint. Það eru einhverjar kostnaðaráætlanir á floti og þær voru eitt árið 70 milljarðar og svo næsta árið höfðu þær hækkað um á annan tug prósenta, upp í 80 milljarða. Hvað er gefandi fyrir svona plögg? Hvað er að marka þau? Hvernig getur ríkissjóður Íslands orðið aðili að svona verkefni í gegnum fjármögnun? Þetta er afar sérkennilegt.

Sumir halda því fram að við séum eitthvað að reyna að tálma þessari borgarlínu en málið er að við í Miðflokknum erum fylgjandi almenningssamgöngum. En það er náttúrlega fráleitt mál að það sé hverju sem er kostandi til þess. Ef hægt er, að dómi sérfræðinga, að ná eðlilegum markmiðum í því efni með því að verja til þess nokkrum milljörðum í stað nokkrum tugum milljarða erum við auðvitað hlynntir því. Hvar eru annars upplýsingar af hálfu formælenda borgarlínu? Hvar eru upplýsingar af þeirra hálfu um kostnað, um vikmörk á kostnaði, áhættuþætti sem gætu ráðið því að það yrðu frávik frá áætlunum í kostnaði? Hvar eru arðsemisgreiningar?

Herra forseti. Það hefur komið fram á fyrri stigum umræðu í þessum sal að ekki liggur fyrir nein rekstraráætlun fyrir borgarlínu þegar hún er að fullu tilbúin og á að vera í rekstri. Það liggur heldur ekki fyrir hverjir eigi að bera þann kostnað. Ég leyfi mér að segja að þetta er afar fálmkennt og óljóst og ófullnægjandi. Þau áform sem hér eru uppi af hálfu ríkisstjórnarinnar, að fjármagna þessi kosningaloforð vinstri flokka í meiri hluta borgarstjórnar, og Samfylkingarinnar sérstaklega, eru afar sérkennileg svo að ekki sé meira sagt.

Ég held að aðalatriðið í þessu máli sé að skilgreina markmið og að leita hagkvæmustu og ódýrustu lausnanna til þess að ná þeim markmiðum. Ef hægt er að ná þeim með nokkrum milljörðum í stað nokkurra tuga milljarða þá hlýtur það að vera rétta leiðin.