150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:46]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Það kom fram í ræðu fyrr í kvöld að það þyrfti um 40% nýtingu á almenningssamgöngum svo að þær borguðu sig, eða þjónuðu hlutverki sínu. Ef ég tók rétt eftir þá er staðan núna u.þ.b. 8% nýting. Samt sem áður á að leggjast í gríðarmiklar framkvæmdir sem kosta mjög mikla fjármuni. Það sem er líka merkilegt er að stofnanir eru að flytja úr miðborginni. Sem dæmi vil ég nefna að Útlendingastofnun flutti starfsemi sína árið 2017. Sýslumannsembættið flutti líka árið 2017. Tryggingastofnun flutti starfsemi sína í burtu 2018. Það gerði einnig Landsréttur og við vitum að Hafrannsóknastofnun er rétt svo flutt til Hafnarfjarðar. Og mér skilst að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sé að leita sér að nýju húsnæði, og eins og fram kom hér fyrr í kvöld er það húsnæði ekki endilega í höfuðborginni. Ekki má gleymi því að nú er búið að sameina tollstjóra og ríkisskattstjóra, og þeir eru líka að leita að húsnæði. Reyndar væri kannski sniðugt að nýta tækifærið og dreifa starfsemi þessara stofnana hringinn í kringum landið eða alla vega skoða annan stað með fjarvinnu í huga, eins og við lærðum svo vel að hægt er að gera í Covid. En allar þessar stofnanir hafa flutt úr miðborginni nema Landspítali. Landspítali virðist ætla að vera á sínum stað við Hringbraut og hugsanlega leysist vandinn ef engin stofnun verður eftir þar nema Landspítali. Það er kannski eins gott því að það eru alls ekki til fjármunir til að standa undir öllu því sem ætlunin er að ráðast í í sambandi við almenningssamgöngur, og þá sér í lagi það sem við köllum borgarlínu.

Mig langar aðeins að fara til baka í veturinn sem skall á okkur af fullum þunga. Það var fyrir tíma Covid, nú miðar maður svolítið við það. En óveðrið sem gekk yfir landið setti hlutina í samhengi fyrir marga. Ég man eftir því að hafa verið hér í þinginu og ég beið alltaf eftir þessu óveðri en náði svo að keyra heim í því sem næst logni því að óveðrið kom aldrei hingað. Ég taldi okkur sloppin en það var vegna þess að við fengum ekki fréttir þaðan sem veðrið gekk hvað harðast yfir og skildi eftir sig hrikalega slóð. Settar voru upp aðgerðarmiðstöðvar víðast hvar og við lásum fréttir og eftir því sem dagarnir liðu sáum við fréttir af ótrúlegum afrekum allra aðila, sem við megum ekki gleyma. Og það er einmitt þetta atriði sem ég held að við þurfum að taka mjög vel með í reikninginn, að með því að setja alla fjármuni í eitthvert apparat sem þjónustar 8% íbúa á höfuðborgarsvæðinu þarf eitthvað annað að sitja á hakanum. Ég er ekki alveg sannfærð um að landsmenn sætti sig við það, sérstaklega ef þeir rifja það upp nokkra mánuði aftur í tímann hvað gekk á.