150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:57]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar í þessari ræðu að grípa aðeins niður í umsögn frá því fyrr í vetur frá Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi. Þar segir m.a., með leyfi hæstv. forseti:

„Hins vegar veldur það Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi miklum vonbrigðum að aðeins er áætlað að verja 1.070 milljónum til nýframkvæmda við vegi á Vesturlandi á næstu fimm árum eða mun lægri upphæð en í nokkrum öðrum landshluta. Við það geta sveitarfélögin á Vesturlandi ekki unað. Því gera samtökin eftirfarandi athugasemdir við samgönguáætlun og fara fram á breytingar á áætluninni.“

Áfram segir:

„Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi leggja þunga áherslu á að framkvæmdum við Skógarstrandarveg verði hraðað. Hönnun vegarins verði lokið á fyrsta tímabili samgönguáætlunar og að jafnframt verði hægt að hefja framkvæmdir á fyrsta tímabili samgönguáætlunar, en ekki á öðru tímabili eins og áætlunin gerir ráð fyrir.“

Og áfram:

„Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi telja það ótækt að stöðva framkvæmdir við Uxahryggjaveg í fimm ár og fresta verklokum fram til ársins 2029. Því er lögð áhersla á það að hönnun breytinga á kaflanum frá Brautartungu að Kaldadalsafleggjara verði lokið sem fyrst og að framkvæmdir við veginn hefjist að nýju eigi síðar en árið 2023.“

Og síðar:

„Á Vesturlandi eru um 14% af vegkerfi landsins og þar eru um 60% vega án slitlags. Þrjú sveitarfélög á Vesturlandi eru í hópi þeirra tíu sveitarfélaga á landsvísu þar sem fæstir vegir er lagðir bundnu slitlagi, en það eru Skorradalshreppur, Dalabyggð og Borgarbyggð. Tæplega 10% af vegakerfi landsins er í þessum þremur sveitarfélögum. Sveitarfélögin Borgarbyggð og Dalabyggð eru landstór sveitarfélög þar sem búið er að sameina fjölda sveitarfélaga, en fyrir 30 árum síðan voru 20 sveitarfélög á því svæði sem þessi tvö sveitarfélög ná yfir í dag. Það er afar mikilvægt að þegar sveitarfélög sameinast þá fái þau stuðning til þess að byggja upp heildstæð atvinnu- og þjónustusvæði. Góðar samgöngur eru lykilatriði í því að hægt sé að byggja upp slík svæði og sérstaklega mikilvægt að huga að því þegar gera á átak í sameiningu sveitarfélaga.“

Og aðeins áfram:

„Í umsögn okkar höfum við fagnað því að vinna við tvöföldun Vesturlandsvegar er hafin með framkvæmdum á Kjalarnesi. Á öðru tímabili samgönguáætlunar er gert ráð fyrir að haldið verði áfram og vegurinn frá Hvalfjarðargöngum í Borgarnesi verði tvöfaldaður (2+1). Því leggja Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi þunga áherslu á að nægjanlegt fjármagn verði veitt á árunum 2020–2024 til undirbúnings og hönnunar á Vesturlandsvegi frá Hvalfjarðargöngum í Borgarnes þannig að hægt verði að hefja framkvæmdir strax árið 2025.“

Það má segja að ekki sé verið að biðja um mjög mikið í stóra samhenginu heldur bara lágmarksviðhald eða bara í þá áttina.

Í niðurlagi segir:

„Það verður að segjast eins og er að ástandi vega á Vesturlandi hefur hrakað undanfarin 10 ár og óánægja íbúa með vegakerfið aukist mjög, sem m.a. kemur fram í íbúakönnun SSV frá árinu 2016. Frá árinu 2008 hefur lítið verið framkvæmt og Vestlendingar upplifa það að landshlutinn sitji á hakanum. Vegna þessa horfðu margir til þess að í nýrri samgönguáætlun yrðu kynntar tillögur að umtalsverðum vegabótum. Vestlendingar hafa um árabil barist fyrir því að farið yrði í tvöföldun Vesturlandsvegar á Kjalarnesi og því er það fagnaðarefni að loksins munu þær framkvæmdir hefjast. Það er hins vegar afar erfitt að horfa til þess að á næstu fimm árum verði aðeins framkvæmt fyrir rúman milljarð á Vesturlandi og enginn landshluti býr við lægri fjárveitingar.“

Svo mörg voru þau orð.