150. löggjafarþing — 120. fundur,  18. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:45]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að grípa ofan í nefndarálit 1. minni hluta af því að mér finnst ákveðnar mótsagnir vera í álitinu og hv. þingmaður, sem er flutningsmaður að því, gagnrýndi þingmenn Miðflokksins eitthvað í ræðu. Það varð til þess að ég fór að kíkja á nefndarálitið. Þarna er annars vegar varað við óhóflegri gjaldtöku en hins vegar vísað til þess að það þurfi að ganga frá samgöngusáttmálanum en eitt af lykilatriðum í honum er að hægt sé að innheimta svonefnd flýti- eða umferðargjöld. Ég leitaði á heimasíðu ríkisstjórnarinnar að þessum samgöngusáttmála og þar kemur fram svart á hvítu að félagið, sem á að stofna, muni geta innheimt svokölluð flýti- eða umferðargjöld sem yrðu liður í breyttri fjármögnun ríkisins. Þetta lýtur allt að því að rukka fyrir notkun á verkefnum sem eru tengd samgöngusáttmálanum. Ég fæ það ekki alveg til að ganga upp hvernig 1. minni hluti getur verið á móti gjaldtöku, eins og það er orðað hér, með leyfi frú forseta:

„1. minni hluti varar við óhóflegri gjaldtöku á almennar akstursleiðir íbúa landsins í sínu nærumhverfi og minnir á reynslu Norðmanna í þeim efnum þar sem veggjöld mæta vaxandi andstöðu almennings.“

Og síðan segir í næstu málsgrein, með leyfi forseta :

„Fyrsti minni hluti tekur undir mikilvægi þess að áformum samkvæmt samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins verði framfylgt …“

Fyrsti minni hluti segir í einu orðinu að ekki eigi að rukka, þarna segir reyndar „óhóflega“ þannig að allt sé haft á hreinu hér. Eins og ég skil nefndarálitið er hann á móti óhóflegri gjaldtöku í nærumhverfi en samt með því í samgöngusáttmálanum. Mér finnst þetta ekki ganga upp. Mér finnst ósamræmið mjög mikið. Í það minnsta er ekki reynt að útskýra hver er munurinn á að innheimta þessi flýti- eða umferðargjöld í samgöngusáttmálanum, þ.e. að fyrirtækið sem virðist eiga að stofna fái heimild til að innheimta þessi gjöld, og því að ekki megi innheimta gjöld af öðrum framkvæmdum í nærumhverfi. Þarna er ákveðin mótsögn sem kannski endurspeglar aðeins viðhorf þeirra sem eru fylgjandi þessum samgöngusáttmála og svo gjaldtöku almennt.

Að öðru leyti er fjallað lítillega um aðra hluti í minnihlutaálitinu. Það er talað um orkuskipti og þar er áhugaverð pæling um rafmagnsflugvélar. Það getur vel verið að einhvern tímann í framtíðinni verði hægt að fljúga milli landshluta á rafknúinni flugvél og sjálfsagt að fylgjast með því. En stærsti hlutinn í þessu nefndaráliti snýr að fjármögnun innviða og samvinnuverkefni. Þar er þessi árekstur í rökum, finnst mér. Það er ákveðin mótsögn í nefndarálitinu, að mínu viti, og hefði verið áhugavert að fá útskýringar á því af hverju þetta er sett upp með þessum hætti. Ef sá sem hér stendur misskilur nefndarálitið er það bara þannig og það hefði verið gott að fá leiðréttingu á því.

Síðar í kvöld ætla ég kannski að fjalla aðeins aftur um flugþáttinn í samgönguáætluninni og síðar mögulega hafnirnar og koma líka inn á þá framtíðarsýn sem menn hafa um almenningssamgöngur um landið, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu. Að sjálfsögðu skiptir máli víða að almenningssamgöngur séu í lagi. En svo mun ég vonandi fá tíma til að fara aðeins yfir betur yfir fjármögnunina.

Að þessu sögðu ítreka ég að ég furða mig svolítið á þeirri mótsögn sem er í nefndaráliti 1. minni hluta, bæði að vara við gjaldtöku og hins vegar að hvetja til hennar í gegnum þetta svokallaða félag sem virðist alveg skýrt samkvæmt heimasíðu island.is að eigi að fjármagna sig m.a. með flýti- og umferðargjöldum.