150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[00:22]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Mig langar í þessari ræðu að halda áfram að lesa hérna upp í sambandi við borgarlínuna en þar segir, með leyfi forseta:

„Borgarlínan mun að mestu verða borguð af íbúum á svæðinu. Meðalheimili mun því þurfa að leggja út 12 milljónir króna í stofnkostnaðinn. Verði tap á rekstri borgarlínu gæti þáttur hvers heimilis í tapinu numið tugum þúsunda til viðbótar um ókomin ár. Flest heimili munar um milljónir. Hjón sem hafa samtals 200 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur á mánuði þurfa að fórna afrakstri 5–10 mánaða vinnu í borgarlínuna. Slík útgjöld geta þýtt verulega skerðingu á lífsgæðum.

En kannski skipta peningar ekki öllu máli, það er jú tíminn sem er dýrmætastur. En þá tekur enn verra við því borgarlínan mun sólunda tíma allra íbúa á svæðinu, hvort sem þeir nota hana eða ekki. Þeir sem ferðast í borgarlínu verða að meðaltali 15–20 mínútum lengur að komast leiðar sinnar en þeir sem ferðast í rafbíl. Að meðaltali þarf að ganga 500 metra að næstu biðstöð sem tekur 5 mínútur að meðaltali tekur 5 mínútur að bíða eftir vagni. Vagninn stoppar nokkrum sinnum og það lengir ferðina um 5 mínútur.

Þeir sem meta tíma sinn mikils munu því forðast að nota borgarlínu nema yfirvöld grípi til aðgerða til að minnka þennan mikla tímamun. Auðveldasta leiðin er sú sem COWI leggur til og felst í því að tefja þá sem vilja nota fólksbíl. Það er gert með því að fækka akreinum fyrir bíla sem eykur líkur á umferðartöfum og fækka bílastæðum sem þýðir að fólk getur ekki lagt eins nálægt áfangastað. Það er ótrúlegt að borgarstjóri og sveitarstjórar telji slík áform „auka lífsgæði“ íbúa.

Tefjist 100.000 íbúar á vinnu- og skólaaldri um 15 mínútur á dag vegna þessara áforma tapast hátt í 1 milljón vinnudaga á ári. Ef við verðleggjum hvern 8 tíma vinnudag á 12.000 kr. jafngildir tímasóunin um 12 milljörðum kr. á ári. Auðvitað væri þetta ekki allt vinnutap en sóunin væri engu að síður gríðarleg og myndi bitna á íbúum með ýmsum hætti.

Það er fullyrt að borgarlína fækki umferðarslysum, ég hef reyndar ekki skoðað í hverju það felst. En það blasir samt við að í borgarlínuvagni fær aðeins ökumaðurinn bílbelti. Farþegarnir munu sitja lausir í sætum eða standa meðan vagninn er á ferð. Þetta er hættulegt fyrirkomulag enda geta farþegar slasast mjög illa við það eitt að vagn hemlar skyndilega, svo ekki sé talað um lendi vagn í árekstri. Það er skrýtið að farþegar þurfi ekki að sitja spenntir í sætum á meðan vagn er á ferð. Kannski er ástæðan sú að afköst borgarlínu minnka allt of mikið því stoppin tækju þá mun lengri tíma. Hér er því öryggi farþega fórnað í hagræðingarskyni.

Undanfarin ár hafa bílaframleiðendur og tæknifyrirtæki fjárfest af miklu kappi í þróun bíla sem ekki þurfa ökumann. Stefnt er að því að flotar sjálfstýrðra, hagkvæmra og vistvænna leigubíla muni keppa við einkabílinn, leigubíla og almenningsvagna. Færri munu kjósa að eiga bíl, því það verður alltaf hægt að fá ódýrt skutl með sjálfstýrðum leigubíl. Eftirspurn eftir almenningsvögnum mun því skreppa saman en ekki aukast.

Það gæti orðið hagkvæmara fyrir sveitarfélög að hætta rekstri almenningsvagna en niðurgreiða þess í stað akstur með sjálfakandi bílum. Þessir 70–150 milljarðar sem fyrirhugað er að binda í borgarlínu verða þá engum til gagns. Það mun að auki þurfa að leggja milljarða í að fjarlægja nýbyggðar borgarlínubiðstöðvar, farga stórum borgarlínuvögnum og opna á nýjan leik borgarlínuakreinar fyrir almennri umferð.“

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að vera settur á mælendaskrá á ný.