150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:09]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég hef í fyrri ræðum mínum fjallað um skýrslu sem Samtök sunnlenskra sveitarfélaga gerðu fyrir ekki svo löngu um þau verkefni sem blasa við á Suðurlandi í samgöngumálum. Í skýrslunni koma fram tíu áherslupunktar sem samtökin segja að séu forgangsverkefni í samgöngumálum á Suðurlandi og áherslupunktarnir eru allir jafn mikilvægir. Ég hef farið í gegnum þá flesta en þó ekki alla. Ég endaði síðast á því að geta þess að samtökin ítreka mikilvægi almenningssamgangna á Suðurlandi og segja að við tilfærslu málaflokksins frá landshlutasamtökum til Vegagerðarinnar verði að tryggja að þjónustan skerðist ekki heldur þvert á móti þróist og eflist.

Síðan er lögð áhersla í þessari skýrslu á flugsamgöngur. Það þurfi að tryggja áfram flugsamgöngur til Hornafjarðar og Vestmannaeyja með opinberum stuðningi. Undir það skal heils hugar tekið hér. Flug er mikilvægar almenningssamgöngur til að tryggja aðgengi íbúa að öruggri heilbrigðisþjónustu og sérfræðiþjónustu sem ekki fæst heima fyrir þar sem um langan veg er að fara. Í því sambandi er ekki síst mikilvægt að hafa sjúkraflugið í huga.

Af því að ég nefndi sérstaklega flugvöllinn við Hornafjörð þá eru mörg tækifæri í því að bæta aðstöðuna þar og breikka flugbrautina. Hún er í dag um 30 metrar á breidd. Malbika verður að flugbrautarljósunum og þá fer brautin í 45 metra sem skiptir miklu máli upp á öryggið. Það eru einhver áhöld um það og ekki alveg samstaða um það meðal heimamanna og síðan Isavia hvort breikka eigi brautina. Ég held að það sé mjög mikilvægt að í það mál fáist farsæl lausn. Hæstv. samgönguráðherra skipaði starfshóp til þess að reyna að ná sáttum í þessu máli, sérstaklega hvað varðar afstöðu heimamanna og reyna að sameina þessi tvö sjónarmið, sjónarmið Isavia og heimamanna. Ég held að sá hópur hafi ekki skilað af sér enn þá en þess sé ekki langt að bíða.

Ég vona að menn sjái mikilvægi þess að bæta í og endurbæta flugvöllinn á Höfn vegna þess að hann er mikilvægur samfélaginu á Höfn í Hornafirði og eykur auk þess ýmsa möguleika er varðar t.d. ferðaþjónustu. Nú eru uppi áform um byggingu gistiaðstöðu, reyndar held ég að það sé lúxushótel austur í Lóni, og markaðurinn er þá ferðamenn sem eru meira borgandi, ef svo má orða það, og vilja geta flogið til Hafnar. Þá er mjög mikilvægt að flugvöllurinn geti tekið við einkaþotum og stærri þotum. Það er auk þess mikilvægt bara upp á öryggið að aðstaðan sé bætt. Þarna eru aðilar sem hafa í hyggju að byggja flugskýli og fleiri mannvirki á flugvellinum og þau áform eru svolítið í biðstöðu vegna þess að það er ekki búið að taka ákvörðun um það hvort breikka eigi flugvöllinn. Ég vonast til þess að í þetta mál fáist farsæl niðurstaða. Það er mjög mikilvægt fyrir samfélagið fyrir austan. Auðvitað á að nýta tækifærið nú þegar lítið er um ferðamenn og menn komi að því að reyna að byggja þetta upp svo að hægt sé að nýta aðstöðuna á þessu svæði þegar ferðamannastraumurinn fer aftur í gang, sem verður vonandi ekki innan mjög langs tíma. Ég vildi nefna þetta sérstaklega hér vegna þess að þetta er áhersluatriði sem heimamenn hafa lagt mikið upp úr.

Hvað varðar Vestmannaeyjar, ég mun kannski koma betur að því hér á eftir, er mikilvægt að fara í opinberan stuðning við flugið. Flug til Vestmannaeyja hefur alltaf verið mikilvægt og verður það áfram (Forseti hringir.) og þá sérstaklega hvað sjúkraflugið varðar. Ég ætla að koma nánar að því á eftir og vil biðja forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.