150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:57]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Þar sem frá var horfið í minni fyrri ræðu var ég að fjalla um jarðgöng. Við búum í landi þar sem víða er að finna erfiða fjallvegi. Landið er fjöllótt, vogskorið og víða erfið vetrarfærð á fjallvegum. Þess vegna er þeim mun nauðsynlegra að við framkvæmum meira á sviði jarðgangagerðar en við höfum verið að gera. Kraftur í jarðgangagerð hefur ekki verið í líkingu við t.d. það sem er í Færeyjum þar sem eru miklu fleiri metrar af jarðgöngum per mann heldur en nokkurn tímann á Íslandi. Einhvern tíma reiknast mér til að það munaði tugum metra per mann. Við eigum svolítið langt í land hvað það varðar. En auðvitað er þetta dreifbýlt og stórt land og fámennt þannig að það er einnig skiljanlegt. En að mínu mati er ein besta samgöngubótin fyrir byggðir sem eiga yfir erfiða fjallvegi að fara að fá jarðgöng til að stytta sér leið og til að losna við ferð yfir, oft á tíðum, erfiða og snjóþunga fjallvegi.

Ég var kominn að næsta atriði í álitinu, þ.e. samvinnuverkefni í vegaframkvæmdum. Í meirihlutaálitinu segir:

„Í samvinnuverkefni felst að einkaaðili annast fjármögnun í heild eða að hluta eða tekur á sig með öðrum hætti fjárhagslega áhættu af gerð og rekstri opinbers mannvirkis, með heimild til gjaldtöku fyrir notkun. Samvinnumannvirki verður ríkiseign að samningstímabili loknu.“

Þannig háttaði til að þegar samgönguáætlun var lögð fram voru nefnd fjögur verkefni. Það voru Ölfusárbrú, og það hillir undir að það verkefni fari í hönnun og útboð, hringvegur um Hornafjarðarfljót, en framkvæmdir eru þegar hafnar þar og vantar einungis ákvörðun um fjármagn og útboð til að það megi halda þar áfram af krafti, síðan vegurinn um Öxi, láglendisvegur um Mýrdal og göng undir Reynisfjall, sem örlítið lengra er í en tvö fyrstu verkefnin sem ég nefndi. Það yrði auðvitað mikil bragarbót fyrir íbúa og ferðafólk að fá göngin undir Reynisfjall og þennan veg niðri á láglendinu í stað þess að þurfa að keyra yfir skarðið og um Gatnabrún sem er farartálmi og hafa orðið þar tíð umferðaróhöpp. Það er mikils virði að losna við það og þetta styttir leiðina um u.þ.b. 3 km. Umferð um þennan veg hefur aukist gífurlega á síðustu árum svo að þetta er hið besta mál og við í minni hlutanum styðjum fyrirætlanir meiri hlutans um að setja kraft í þessi verkefni.

Síðan er tveimur verkefnum í viðbót bætt við. Annað er Sundabraut sem er alveg sérkapítuli og ég gæti flutt nokkrar ræður um það. Svipað því sem ég ræddi áðan varðandi samgöngusáttmálann og borgarlínu er einhver herkví í gangi þar eins og víða annars staðar á höfuðborgarsvæðinu. Þarna er á ferðinni líklega svona 50 ára gömul herkví og vonandi sjáum við fljótlega hilla undir hvernig þessu reiðir af, frú forseti. Ég á eftir að nefna eitt í viðbót, flugvöllinn. Hann er ekki í minni herkví en vegakerfið og Sundabraut. Það virðist því vera kækur hjá borgarstjórnarmeirihlutanum að fá sínu framgengt með því að halda framkvæmd í einhvers konar herkví á kostnað samgönguyfirvalda í landinu og landsmanna allra. Flugvöllurinn í Reykjavík er fyrir alla landsmenn, ekki bara höfuðborgina.