150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[02:02]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Frú forseti. Ég hef áður minnst á það í ræðu að erfitt sé að gera bindandi samninga við borgarstjórnaryfirvöldin í Reykjavík. Það er m.a. vegna þess að áætlunargerð er ekki einn af þeim styrkleikum sem starfandi meiri hluti, sem er reyndar minni hluti í Reykjavíkurborg, hefur yfir að ráða. Það sést best á því þegar sá ágæti meiri hluti endurbyggði bragga fyrir verð skýjakljúfs. Það hefur líka komið fram víða annars staðar og nú er eitt nýlegt dæmi komið upp. Það er jarðgerð Sorpu sem býr til og framleiðir metan. Ég hygg að á árunum 2008–2010, áður en ég hóf virka þátttöku í stjórnmálum, hafi ég haft uppi fyrirspurnir um það hvort byggðasamlagið Strætó væri ekki góður viðskiptavinur til að kaupa metan og hvort ekki væri rétt að stilla saman framleiðslu á metani því að þá var jarðgerðarstöðin á teikniborðinu og orðin hugmynd, þessi metanúrvinnslustöð. Ég stakk því að mönnum þá hvort ekki væri rétt að metanvæða strætisvagnaflotann vegna þess að þá væri hægt að spara við sig að gera mjög stórt dreifikerfi af því að auðvitað er metan úrvalseldsneyti og mengar ekki, nema þegar það sleppur út í loftið, þá er það mjög mengandi. Þess vegna verða menn að brenna það sem afgangs verður, svo að það sleppi ekki út í andrúmsloftið og brenni. En þegar það brennur eins og í bílvél er mengunin af því sáralítil.

Það er svo merkilegt, frú forseti, að apparötin í borginni og sveitarfélagaflórunni á höfuðborgarsvæðinu virðast ekki tala saman. Þess vegna varð ekkert úr því að menn færu að taka í notkun metanvagna svo nokkru næmi og ákváðu því jafnvel að stökkva yfir í næsta fasa sem er rafmagnsstrætisvagn. Ég er ekkert að lasta það á neinn hátt nema að þarna voru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu búin að koma sér upp stöð til að framleiða metan. Á hinum vængnum var annað samvinnuapparat sveitarfélaganna, Strætó. Ég tel að í einhverjum tilfellum hafi jafnvel verið sömu stjórnarmenn í báðum fyrirtækjum. Samt hefur þessum tveimur apparötum ekki tekist að tala saman þannig að úr verði farsæl samvinna. Og hvers vegna segi ég þetta, frú forseti? Jú, það er vegna þess að mál sem við eigum eftir að taka hér upp í næstu viku, eftir að við höfum rætt þetta, fjallar um samstarfssamning um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu. Maður verður að segja, eftir það sem maður hefur séð, að farsæld borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík í fjármálum og athyglisgáfa hans í áætlunargerð hræðir mann. Þess vegna höfum við haft uppi, frú forseti, efasemdir um að treysta megi þessum tölum, þeim tæplega 50 milljörðum sem eru ætlaðir til þess að koma á fót svokallaðri borgarlínu. Við erum reyndar mjög vissir um að tölurnar komi ekki til með að standast. Annað er hitt, eins og fram hefur komið, frú forseti, að ekki virðist vera til nein rekstraráætlun fyrir þessa samgöngubót, ef svo mætti kalla. Það gerir okkur frekar varkára og þess vegna viljum við ræða málið og fá upp á borðið allar þær upplýsingar sem við getum nálgast með góðum hætti. Ég sé að nú er tími minn útrunninn og bið því forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.