150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[02:45]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég ætlaði að taka til máls um þann hluta þeirra aðgerða sem hér eru til umræðu og eiga að greiðast af hærri gjöldum á bíleigendur. Í þeim aðgerðum sem við höfum verið að ræða er boðað að sett verði á svokölluð flýtigjöld, sem einu sinni hétu tafagjöld en menn hafa greinilega séð að það var söluvænna að kalla þau flýtigjöld. Þetta á að skaffa ríkissjóði allnokkrar tekjur. Við Miðflokksmenn höfum verið tregir til skattahækkana og höfum ekki flutt, held ég, nokkra einustu tillögu til skattahækkana á okkar ferli. Það er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því og auðvitað sjá það allir að samsetning ökutækja er að breytast, það er meira verið að fara yfir í rafbíla og fleira. Ég ræddi reyndar kosti metansins hér áðan sem hefur einhverra hluta vegna ekki fengið jafn mikla útbreiðslu og menn væntu. Þess vegna er nú þetta vesen á fyrirtæki sem heitir Sorpa og er nýbúið að setja upp stóra jarðgerðarstöð. En ef við ætlum að fara að setja á slík gjöld, einhver veggjöld, þá væri óþolandi að þau gjöld legðust ofan á þau gjöld sem eru þegar innheimt af bifreiðum. Þá er ég að tala um bifreiðar með sprengihreyfli, annaðhvort dísil eða bensín. Það hlýtur að verða þannig, herra forseti, að þegar menn leggja á einhver önnur gjöld, hvort sem við köllum þau flýtigjöld, tafagjöld, kílógjöld eða hvað þau heita, þá þurfa menn náttúrlega að taka tillit til þeirra gjalda sem þegar eru innheimt til þess að gæta jafnræðis í skattheimtu á bíleigendur og til að kappkosta það að menn sitji við sama borð.

Nú hefur verið heilmikill hvati í því að flytja inn rafmagnsbíla og hann hefur komið fram í tollaafslætti eða afslætti á vörugjöldum sem aðrir bílar hafa ekki notið. Auðvitað styðjum við orkuskipti og ef það er eitthvert land í heiminum þar sem rafbílar eiga að fara um götur þá er það hér vegna þess að við framleiðum jú raforku með endurnýjanlegum hætti. Víða erlendis er það þannig að maður sem ekur rafmagnsbíl er í raun réttri að aka fyrir kjarnorku eða gasi eða olíu. Olían er sá orkugjafi sem býr til rafmagnið sem menn hlaða heima hjá sér eða hvar sem þeir gera það. Ég man eftir því í þessu sambandi að fyrir nokkrum árum var grínisti nokkur að gera grín að Hollywood-stjörnum sem flykktust út og reyndu að kaupa sér rafbíla, þá fyrstu sem komu á markaðinn, og hann sagði sisvona: Hvaðan halda menn að rafmagnið komi? Úr veggnum? Auðvitað er raforka erlendis framleidd með orkugjöfum sem eru ekki nándar nærri eins vistvænir og þeir sem við notum hér. En þetta var nú útúrdúr, herra forseti.

Aðalatriðið er að ef við ætlum að breyta á einhvern róttækan hátt innheimtu af ökutækjum og setja á ný gjöld verðum við að kappkosta að þau bætist ekki ofan á gjöld sem fyrir eru heldur verði þetta þannig að þeir sem aka um vegi landsins séu nokkurn veginn á sama róli hvað áhrærir skattheimtu til ríkissjóðs. Því held ég að mikil nauðsyn sé á því að hér fari fram gaumgæfileg umræða um þetta. Það verður væntanlega í næstu viku þegar við tökum til við þennan stóra samgöngusamning, því þetta er nú kannski meira þar inni en hér. En við þurfum alla vega að taka um þetta gaumgæfilega umræðu og fara vel yfir hvernig væri hægt að gera þetta með sem hagfelldustum hætti og þannig að þetta komi sem jafnast niður. Nú sé ég að ræðutími minn er búinn, merkilegt nokk, og mig langar að biðja forseta um að setja mig á mælendaskrá að nýju vegna þess að það er margt ósagt í þessu.