150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[03:06]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Mig langar aðeins að koma inn á umferðaröryggi og unga fólkið í umferðinni, og forvarnir í þeim efnum. Fulltrúar ungmennaráða í framhaldsskólunum voru með málþing fyrir ekki svo löngu um umferðaröryggi og yfirskriftin var: Umferðaröryggi, okkar mál. Þar var skorað á stjórnvöld að efla enn frekar fræðslu og forvarnir í umferðaröryggismálum og setja fram skýra stefnu og aðgerðaáætlun um úrbætur í almenningssamgöngum og vegakerfinu. Það er mjög mikilvægt að fækka slysum meðal ungs fólks í umferðinni og árangur í fækkun slysa af völdum ungs fólks í umferðinni sýnir að hækkun bílprófsaldurs er ekki brýnasta verkefnið. Það er hins vegar aukin fræðsla og áhersla á forvarnir sem er mikilvægt og er tæki sem þarf að nýta og stórefla á öllum skólastigum, í kennslu og með öðrum hætti, svo að við náum því að efla umferðaröryggi meðal ungra ökumanna.

Það kom líka fram að brýnt væri að fræða erlenda ökumenn um aðstæður á Íslandi og bæta aðstæður hvað varðar forvarnir fyrir erlenda ökumenn. Að mati unga fólksins er nauðsynlegt að aðskilja akstursstefnur á fjölförnum vegum. Það er ánægjulegt og áhugavert að hlusta á unga fólkið þegar það tjáir sig um umferðaröryggismál vegna þess að það hefur stundum jafnvel einfaldari og betri sýn en við sem erum kannski vön því að vera mikið í umferðinni og erum búin að vera ökumenn lengi. Svo er það nú þannig að tæknin mun á næstu árum gjörbreyta umferðinni hér eins og annars staðar og ég held að það sé eitthvað sem við þurfum að huga að, að vegakerfið verði í framtíðinni undirbúið undir þá tæknibyltingu sem er handan við hornið í þessum efnum.

Síðan er það þessi þjálfun við erfiðar aðstæður. Flestir ökumenn sem eru nýkomnir með ökupróf eða bílpróf eiga það sammerkt að ofmeta hæfni sína við akstur. Þeir telja sig í raun betri í akstri en þeir raunverulega eru, t.d. í lausamöl, hálku, snjó, rigningu og myrkri, og einnig í því að bregðast við óvæntum hindrunum á vegi, t.d. gangandi vegfarendum, búfénaði og fuglum. Á þessu hafa verið gerðar rannsóknir, erlendar rannsóknir, sem benda allar í sömu átt. Víða hefur verið brugðist við og reynt að þjálfa þessa hæfileika, t.d. í ökugerði með bifreiðum sem eru sérútbúnar og hafa litla rásfestu. Síðan eru nemendur látnir leysa tilteknar þrautir og takast á við hindranir. Matsrannsóknir á þessari þjálfun hafa ekki sýnt haldbæran árangur í fækkun slysa meðal ungra ökumanna og í sumum tilfellum bent til aukinnar tíðni slysa, sem er náttúrlega alveg ótrúlegt, en ástæðan er talin sú að eftir þjálfunina telja ökumenn sig færari undir stýri og telja sig kunna að aka við erfiðar aðstæður. Það er því að mörgu að hyggja í þessum forvarnamálum þegar kemur að ungum ökumönnum.

Í skýrslu Samgöngustofu um umferðarslys á Íslandi frá árinu 2018 kemur fram að slysum vegna fíkniefnaaksturs hefur fjölgað. Hins vegar hafa ungir ökumenn sjaldan staðið sig betur og bæta sig á milli ára. Það eru ánægjuleg tíðindi og þess vegna held ég að mjög mikilvægt sé að við setjum framkvæmdir sem stuðla að því að draga úr umferðarslysum á hættulegum vegum í forgang. Það á að vera markmiðið í áætlun sem þessari að við drögum úr umferðarslysum með því að bæta umferðarmannvirki þar sem slys eru tíð og það á að vera meginreglan í þessum efnum. (Forseti hringir.)

Ég sé, herra forseti, að tíminn er liðinn og óska hér með eftir að vera settur aftur á mælendaskrá.