150. löggjafarþing — 120. fundur,  19. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[03:16]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Það skal vera gert. Kemur ekki á óvart að hv. þingmaður óski þess. Forseta telst nú svo til að þessi síðari umræða um samgönguáætlanirnar hafi staðið í u.þ.b. 22 klukkustundir. Nú síðustu fimm, sex klukkustundirnar hafa eingöngu hv. þingmenn Miðflokksins tekið þátt í umræðunni og haldið stanslaust fimm mínútna ræður, tíu til tólf hver, allmargir þeirra, og forseti sér þess engin merki að þessu linni, að á þessu verði lát. Það eru forseta nokkur vonbrigði því satt best að segja hafði forseti reiknað með því að við kæmumst mun lengra niður eftir dagskrá þessa fundar á þessum langa degi, ef ekki að tæma hana.

Nú háttar svo til að aðeins fáeinir dagar eru eftir af starfstíma þings á þessu vori og gefur því augaleið að hv. þingmenn þurfa að sýna sanngirni hver í annars garð hvað varðar það að deila bróðurlega á milli sín þeim ræðutíma sem til ráðstöfunar er á þeim fáeinu þingdögum sem eftir eru.

Nú háttar svo til að umræður standa um samgönguáætlanir. Þar er um lögbundið hlutverk Alþingis að ræða. Það er ekki kostur að gefast upp við það að Alþingi ljúki þeirri skyldu sinni að samþykkja landinu gildar samgönguáætlanir sem hægt sé að vinna eftir. Andstaða fáeinna þingmanna getur ekki orðið til þess að Alþingi bregðist skyldu sinni í þessu efni. Forseti vonar að hv. þingmönnum sé þetta ljóst.

Forseti hvetur því hv. þingmenn til að hugleiða hvort þeir geti ekki þjappað sjónarmiðum sínum þannig saman að þegar þessari umræðu heldur fram á næsta fundi taki það ekki langan tíma, annars er ósýnt um að þinglok geti orðið með þeim hætti sem gert hefur verið ráð fyrir. Þurfa þá forystumenn flokka og þingflokka að horfast í augu við nýja stöðu í þeim efnum.