150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:36]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég er alveg sérstaklega ánægður með ræðu hv. þingmanns Suðurkjördæmis sem sýnir kjósendum sínum það fullkomlega svart á hvítu að honum er alveg nákvæmlega sama um þá. Ekki eitt orð um Hornafjarðarfljót, ekki eitt orð um tvöföldun á milli Hveragerðis og Selfoss, ekki eitt orð um miklar framkvæmdir í uppsveitum, tengivegi hér og þar. Ekki eitt orð um frumvarp sem er á dagskrá síðar í dag, eða væri það undir eðlilegum kringumstæðum, ef þingmenn Miðflokksins væru ekki í sínu málþófi, um samvinnuverkefni um brú yfir Ölfusá, ekki eitt orð um neitt af þessum mikilvægu verkefnum í kjördæmi hv. þingmanns heldur: Kæru kjósendur. Mér er sama um ykkur. Ég ætla að vera með mínu liði í að hrópa og garga hér: Borgarlína, nei, takk.

Ég hvet hv. þingmann til að rölta yfir götuna til að kynna sér borgarlínuna. Miðað við hvernig hann talar um hana þá veit hann ekki mikið um hana. Ég hvet hv. þingmann líka til að taka þátt í umræðum um borgarlínuna undir málinu um stofnun félags um borgarlínu. Ég hvet hv. þingmann, ef hann vill vera í sambandi við kjósendur sína, til að tala um málefni kjósenda sinna, ekki bara um borgarlínuna — eða nei, ég dreg alla þessa hvatningu til baka, hæstv. forseti. Ég vil gjarnan að Miðflokkurinn sé búinn að taka niður grímuna sem hinn mikli framkvæmdaflokkur. Hann er að segja við kjósendur sína um allt land: Okkur er alveg sama um ykkur. Okkur er alveg sama um þær samgöngubætur sem þið hafið kallað eftir. Sveitarfélög á Suðurlandi komu á fund hv. umhverfis- og samgöngunefndar og sögðu: Drífið ykkur. Samþykkið þetta núna núna núna. Hv. þm. Suðurkjördæmis segir: Nei, mér er alveg sama um ykkur. Ég ætla að fá að röfla aðeins um borgarlínuna.