150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:57]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er mjög áhugavert. Hv. þingmaður segir okkur að það sé félagsins að ákveða hvernig farið verður með skiptingu á tapinu eða kostnaðinum varðandi þessi verkefni. Ég hef miklar áhyggjur af því að alþingismenn ætli að fara að fela einhverju félagi að ákveða það. Ég hef áhyggjur af því. Í mínum huga verður það að vera, í þeim lögum sem verða sett um þetta félag, í það minnsta alveg klárt og kvitt að félagið sem slíkt geti ekki tekið einhliða ákvarðanir um það. Það þarf að vera alveg klárt að hver einasta fjárskuldbinding af hálfu þessa félags varðandi ríkissjóð komi til Alþingis til umfjöllunar. Það er ekki þannig í dag, ef ég skil frumvarpið rétt. Þessu þarf að breyta, það er alveg klárt mál. Þetta er það sem ég — ég get ekki talað fyrir hönd annarra þingmanna — hef mestar áhyggjur af.

Það er margt ágætt í samgönguáætlun. Það er margt ágætt í þessum pælingum öllum. Ég held reyndar að hv. þingmaður og kollegar hans í nefndinni hafi staðið sig mjög vel. Vondri áætlun frá ráðherra var breytt töluvert mikið. Hún er miklu betri en hún var, svo að það sé sagt. En það eru þar göt eða holur sem maður hefur verulegar áhyggjur af, það sé unnt að binda fjármuni ríkissjóðs til lengri tíma með mikilli óvissu um þessar framkvæmdir, hvernig þær enda og annað, og líka að ef upp koma einhver áföll í öllu þessu verði þeim hent í ríkissjóð, vegna þess að þá minnkar stabbinn af peningunum sem eru til annarra framkvæmda, hvort sem það er á Suðurlandi eða Norðurlandi eða hvar þær eru. Við viljum einfaldlega að það sé girt vel fyrir, að þetta sé allt klárt og kvitt. Ég trúi því alveg reyndar að borgarstjórnarmeirihlutanum í Reykjavík þyki það óskaplega þægilegt að hafa þetta eins opið og hægt er, þannig að hægt sé að senda háttvirtu Alþingi reikninginn fyrir þessu öllu saman.