150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[15:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég ætla að halda áfram frá því sem frá var horfið í síðustu ræðu minni og fjalla aðeins um álit eins helsta skipulagsfræðings okkar og prófessors emeritus við skipulagsfræði við Háskóla Íslands, dr. Trausta Valssonar. Hann og Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur, sem hefur nú borið á góma í þessari umræðu, sendu bæjarstjóranum í Hafnarfirði bréf þar sem þeir settu fram athugasemdir við áætlun um borgarlínu í nokkrum liðum um það sem þeir telja að þurfi nánari athugunar við. Það er mjög athyglisvert og sérstakt að þetta skuli ekki hafa fengið meiri athygli vegna þess að hér tala okkar helsti sérfræðingur í skipulagsfræði og síðan okkar helsti umferðarverkfræðingur.

Dr. Trausti og Þórarinn lýsa miklum efasemdum yfir því að hlutfall einkabílsins minnki úr 76% í 58% eins og gert er ráð fyrir í þeim áætlunum sem tengjast borgarlínunni og að hlutfall þeirra sem nota strætisvagna fari úr 4% í 12%. Þetta eru áætlanir sem eru lagðar fram í tengslum við borgarlínuframkvæmdina og eru mjög athyglisverðar í ljósi þess að það hefur gengið afar brösuglega hjá borgarstjórnarmeirihlutanum að fjölga þeim sem nota strætó og hefur sú tala staðið í stað, í um 4% og rétt rúmlega það í einhverju átaki sem kostaði verulega fjármuni. Þetta sé, eins og þeir segja í bréfi sínu til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði, ótrúverðug niðurstaða í ljósi þess að höfuðborgarsvæðið er bílaborg. Þá hafi tilraunir til að auka þjónustu strætós aðeins leitt til lítillar fjölgunar farþega, og við höfum séð það. Búið er að setja umtalsverða fjármuni, eins og ég segi, í að fjölga þeim sem nota strætó en það hefur ekki tekist. Og hvaða forsendur hafa menn fyrir því að það muni takast í tengslum við borgarlínu? Jú, að vagnarnir fari eitthvað hraðar eða verði fljótari fram og til baka. Þetta snýst auðvitað líka um það hversu lengi þú ert að koma þér á næstu stoppistöð. En þeir segja sem sagt að tilraunir til að fjölga þeim farþegum sem nota strætó hafi leitt til lítillar fjölgunar og það er svo sannarlega rétt.

Einnig segja þeir að það sé mjög hæpið að hlutfall gangandi og hjólandi vegfarenda aukist úr 20% í 30% á tímabilinu vegna langra vegalengda, sem er alveg rétt, og slæms veðurfars yfir vetrartímann. Við þekkjum þetta, við búum bara við aðrar aðstæður á Íslandi en t.d. í Danmörku þar sem er mikil hjólareiðamenning. Við þekkjum þetta öll og þarf ekkert að rökræða frekar.

Þá kemur fram í þessu minnisblaði þeirra til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði að þó að þessi fjölgun gangandi og hjólandi vegfarenda verði að veruleika, sem er nú samt sem áður ólíklegt, minnki umferðin á fjölförnustu þjóðvegunum aðeins um örfá prósent. Ferðir gangandi og hjólandi séu mun styttri en ferðir með einkabíl og mest sé um þær á sumrin þegar bílaumferð er minnst. Þetta eru allt saman þekktar staðreyndir og þeir setja þetta fram í þessu bréfi sínu, einn okkar fremsti skipulagsfræðingur, dr. Trausti Valsson, og Þórarinn Hjaltason umferðarverkfræðingur sem þekkir þessi mál afar vel.

Þeir benda líka á að þrátt fyrir tilkomu borgarlínu þurfi að ráðast í nýframkvæmdir á þjóðvegum upp á 70–80 milljarða kr. á þessu tímabili og þar eru nefnd sem dæmi Sundabraut, Reykjanesbraut í vegstokk milli Lækjargötu og Kaplakrika og ofanbyggðavegur milli Kaldárselsvegar og Arnarnesvegar, auk þess sem nefndar hafa verið þveranir yfir Fossvog og Skerjafjörð. Borgarlína geti aðeins frestað ódýrum breikkunum á vissum köflum um nokkur ár. Þetta eru afar athyglisverð ummæli sem þeir setja fram í bréfi til bæjaryfirvalda í Hafnarfirði. (Forseti hringir.)

Ég mun fjalla nánar um það í næstu ræðu og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá, herra forseti.