150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[17:06]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég er með lista yfir spurningar og svör frá hv. umhverfis- og samgöngunefnd frá fundi hennar 19. maí síðastliðinn. Þetta eru tíu spurningar og mig langar að grípa niður í nokkrar spurningar og svör. Hér er ein af spurningunum, um Gufudalssveit á Vestfjörðum sem ég var að tala um áðan:

„Tvær kærur bárust, hafa þær áhrif á framkvæmdir fyrir vestan? Hver er tímalína annarra verkhluta?“

Hér segir í svari:

„Það bárust tvær kærur vegna útgáfu framkvæmdaleyfis fyrir nýjan Vestfjarðaveg um Gufudalssveit. Vegagerðin skilaði greinargerðum til úrskurðarnefndar þann 20. maí. Það má gera ráð fyrir að það taki úrskurðarnefndina 6–9 mánuði að úrskurða. Vegagerðin er að undirbúa útboð vegna tveggja verkhluta sem gætu farið af stað fyrr. Annars vegar lagningu bundins slitlags á um 6 km á núverandi Vestfjarðaveg í Gufufirði sem mun nýtast sem tengivegur að bæjum í Gufudal að loknum framkvæmdum. Að auki mun það nýtast umferð á Vestfjarðavegi næstu 4–5 ár þar til framkvæmdum er lokið í Gufudalssveit. Hins vegar er stefnt að þverun Þorskafjarðar sem er þá hluti af leið Þ–H eða leið D2. Ekki hefur reynt á hvort að úrskurðarnefndin heimili þær framkvæmdir en það mun skýrast á næstu vikum.“

Þarna er greinilega áfram tafaleikur vegna kærumála á svæðinu. Vegagerðin er að reyna að hnika til köflum sem þó er hægt að fara í sem eru ekki inni í þeim römmum sem kæran fjallar um og er enn óleyst eða ófyrirséð hvernig framkvæmdum um Gufudalssveit mun vinda fram vegna þessara kærumála. En einhver svör koma eftir 6–9 mánuði. Hvernig það verður veit maður ekki, hvort kæruferlin halda áfram.

Svo er önnur spurning:

„Sundabraut; í síðustu viku upplýsti borgarstjóri að breyting á veglínu Sundabrautar vegna „Þorpsins“ hafi verið gerð í samráð við Vegagerðina, passar það? Telur Vegagerðin viðbótarkostnað felast í færslu vegstæðisins upp í holtið ofan við Gufunesið?“

Í svari við spurningunni segir:

„Það voru gerðar breytingar á veglínu Sundabrautar um Gufunes árið 2018 þar sem nýr vegur var færður til í tengslum við deiliskipulagsgerð í Gufunesi. Sú vinna var í samvinnu með Reykjavíkurborg. Ekki var unnið kostnaðarmat á þeirri breytingu.“

Þarna er lítið um svör og enn er ekkert hægt að segja til um framvindu vegar sem áætlaður var um Sundabraut og var kominn til útboðs eða á framkvæmdastig árið 2006, minnir mig. Árið 2011 var sett stopp á þessar framkvæmdir vegna stöðunnar í þjóðfélaginu, og var það um tíu ára skeið sem lýkur 2021, en ekkert er vitað um áform um framvindu. Reykjavíkurborg hefur staðið í vegi fyrir því að veglínan sem áætluð var hérna megin frá verði fær vegna þess að búið er að úthluta lóðum að hluta til á þeim kafla. Það er undarlegt að verða vitni að því að Reykjavíkurborg vilji ekki greiða fyrir umferð úr borginni í vesturátt, eins og ráðamenn þar vilji áfram fara öll hringtorgin í Mosfellsbæ og minnka öryggi og þrengja að umferð. Það er eins og þrengingarstefnan nái í allar áttir.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að verða settur áfram á mælendaskrá.