150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:54]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég hef rætt hér um jarðgöng og kosti jarðganga og er það í mínum huga framtíðarmúsík í samgöngumálum að horfa meira til þess að fara í jarðgöng þar sem það á við vegna þeirrar staðreyndar að þau eru miklu betri langtímafjárfesting heldur en ekki. Mig langar að lesa hér upp úr umsögn fyrrverandi þingmanns og ráðherra, Kristjáns L. Möllers, fyrir hönd 70 rekstrar- og þjónustuaðila á Siglufirði, Ólafsfirði og í Fljótum til umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis vegna þeirrar samgönguáætlunar sem hér er til umræðu. Þar segir, með leyfi forseta:

„Siglufjarðarvegur frá Ketilási í Fljótum til Siglufjarðar hefur verið lokaður í 45 daga frá 10. des 2019 til 24. mars 2020 vegna snjóa og snjóflóðahættu.

Ný jarðgöng frá Siglufirði yfir í Fljót leggja af þennan snjóþunga og erfiða vegkafla sem er um 25 km langur.

Þessi jarðgöng stytta leiðina til Siglufjarðar um 15 km.

Héðinsfjarðargöng milli Ólafsfjarðar og Siglufjarðar, sem opnuð voru fyrir umferð 2010, hafa svo sannarlega sannað gildi sitt og gjörbreytt lífsskilyrðum íbúa á svæðinu. Ein meginröksemdin fyrir framkvæmdunum á sínum tíma var sú að með göngunum tengdist Siglufjörður byggðum við Eyjafjörð á þann hátt að Eyjafjarðarsvæðið í heild yrði öflugra mótvægi við höfuðborgarsvæðið og byggð á miðju Norðurlandi myndi styrkjast verulega. Það hefur ótvírætt gengið eftir. Á sama tíma var nefnt á undirbúningstíma verksins fyrir 20 árum, að ávinningurinn af hringtengingu með ströndinni um Tröllaskaga yrði einnig verulegur fyrir sveitarfélög í Skagafirði, Siglufirði og Eyjafirði, ekki síst í ferðaþjónustu. Í umræðum kom skýrt fram að til framtíðar litið yrði vegur um jarðgöng áfram frá Siglufirði til Fljóta eini raunhæfi kosturinn fyrir slíka hringtengingu, ekki síst vegna ástands vegarins um Almenninga vestan Strákaganga.

Siglufjarðarvegur frá Ketilási að bæjarmörkum Siglufjarðar er um 25 km langur og liggur um svokallaða Almenninga. Vegurinn var lagður í tengslum við opnun Strákaganga árið 1967 …“

Síðan heldur þetta áfram og er talað um jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta, varaleið um Öxnadalsheiði og þar fram eftir götunum. Svo segir í lokin:

„Með umsögn þessari vilja undirritaðir óska eftir því og hvetja hv. umhverfis- og samgöngunefnd sem og Alþingi til þess að setja jarðgöng milli Siglufjarðar og Fljóta á stefnumarkandi og endurskoðaða samgönguáætlun áranna 2020–2034 og fjárveitingu til að hefja allar nauðsynlegar undirbúningsrannsóknir sem allra fyrst á aðgerðaáætlun 2020–2024.“

Undir þetta skrifa 70 aðilar sem segir að það er mikill áhugi fyrir þessu á svæðinu eins og víða og eins og ég hef komið á framfæri í ræðum hér á undan er þetta sá þáttur samgangna og samgönguáætlana sem ég myndi mæla með í framtíðinni að lögð yrði miklu meiri áhersla á. Þó að það sé dýrari leið þá er hún ódýrari til framtíðar litið hvað varðar viðhald og allt slíkt. Þessi umsögn er mjög góð og gaman að sjá hve margir hagsmunaaðilar á svæðinu taka þátt í að rita undir hana.

Hæstv. forseti. Ég óska eftir því að verða settur á ný á mælendaskrá.