150. löggjafarþing — 121. fundur,  20. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:01]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé fyrir andsvarið. Ég átta mig ekki á því hvernig þingmaðurinn fær það út að við séum að tefja málin þegar við erum að ræða þau. Samgöngumál eru hér til umræðu. Erum við þá að tefja þau? Ég átta mig ekki alveg á því. Ég segi það bara í sambandi við áætlanagerðir eins og þessa að þær þurfa sína umræðu og fólk þarf að taka sér tíma til að undirbúa þær. Ég átta mig ekki alveg á þessari spurningu um tafaleik.

En af því að hv. þingmaður kom inn á að í þessu máli væri ekkert í sambandi við borgarlínu til umræðu þá hef ég bent á það, og fleiri þingmenn hér, að minnst er á það í nefndaráliti meiri hlutans, á bls. 16 og 17, þannig að sú hlið samgangna er alveg til umræðu. Við erum ekki að rugla einhverju máli sem er á dagskrá núna við mál sem er á dagskrá síðar en við kannski ræðum það betur þegar að því kemur. Ég er bara áfram um samgöngumál og hef alltaf verið það og hef mikið talað um þau alveg síðan ég kom á þing þannig að tafaleik sé ég ekki að við séum að spila heldur erum við bara að ræða þessi mál meira heldur en minna.