150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

kjarasamningar lögreglumanna.

[11:26]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég er ósammála hv. þingmanni varðandi það að ekkert þokist í viðræðunum því að ég hef fylgst vel með þeim. Þó að ég hefði viljað sjá fleiri fundi líkt og hv. þingmaður þá veit ég að það strandar aðeins á einum lið er varðar sérstaklega álagsgreiðslur, en annað er langt komið. Ég bind miklar vonir við að hægt sé að ljúka þessum samningum fljótlega.

Þegar spurt er hvort lögreglumenn sitji við sama borð þá er það auðvitað þannig að við endurskoðun lögreglulaga, m.a. árið 1996, voru færð mikil og gild rök fyrir því af hverju verkfallsrétturinn væri ekki hjá þessari mikilvægu stétt. Hann var það nú kannski heldur ekki nema í orði fram að því að hann var tekinn af árið 1986, af því að fyrir formlegt afnám hans var tryggt að lögreglumenn ættu að fá tryggingu í staðinn, þ.e. að launaþróun yrði í samræmi við þær hækkanir sem hefðu orðið almennt á vinnumarkaði og aðrir ríkisstarfsmenn hefðu fengið í sínum samningum. Og það er það sem er verið að tryggja, að lögreglumönnum sé boðin hækkun í takt við aðra ríkisstarfsmenn og í takt við lífskjarasamninginn. Ég fylgist vel með þessum samningum, tek undir að lögreglumenn eru framlínustétt eins og bersýnilega hefur sést síðustu vikur og það þarf að tryggja að þeir fái laun í samræmi við það og ég trúi ekki öðru en að það muni gerast fljótlega.

Auðvitað nefnir hv. þingmaður hér gerðardóm, hjúkrunarfræðingar eru að fara með eitt atriði í sínum samningum fyrir dóminn. Lögreglumenn hafa þann möguleika en þeir hafa lýst óánægju með þá lausn af því að þeir hafa líka farið fyrir gerðardóm með sín mál. En ég bind miklar vonir við að fljótlega verði hægt að ná saman um það sem út af stendur.