150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

málefni lögreglunnar.

[11:42]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að fara hratt og örugglega yfir þennan viðamikla málaflokk. Lögreglan er ein af grunnstoðum samfélagsins, gríðarlega mikilvæg, og við búum við þau forréttindi hér að við berum traust til lögreglunnar. Við leitum til lögreglunnar þegar á bjátar og við fáum aðstoð. Sú er ekki staðan í öðrum löndum. Þetta er okkur gríðarlega mikilvægt. En til að við getum haldið fólki í þessari stétt, öllu þessu áhugasama, unga og vel menntaða fólkið sem er að koma núna inn og er virkileg styrking fyrir lögregluna, þurfa launamálin að vera trygg. Þannig að ég vil bara ítreka þetta og hvet ráðherra til að fylgja því fast eftir.

Mig langar til að vita hvort hún sjái fyrir endann á þessu, hvort ætlunin sé að draga þetta enn lengra og láta menn bíða enn lengur. Það er ekki ásættanlegt fyrir nokkurn mann, hvorki fyrir fólkið sem starfar innan lögreglunnar né okkur hin sem njótum þjónustu hennar.