150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

málefni lögreglunnar.

[11:43]
Horfa

dómsmálaráðherra (Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni. Ég skil auðvitað þegar viðræður eru fastar í lengri tíma að stéttir líkt og lögreglan hugsi hvort verkfallsréttur myndi hjálpa til við að koma fólki betur að borðinu. Ég bind þó vonir við að þess þurfi ekki og ekki sé þörf á því. Við vitum auðvitað hvernig lögreglan er, hún er, eins og hv. þingmaður fór yfir, mikilvæg stofnun sem sinnir ákveðnu öryggishlutverki og horft var til þess þegar verkfallsrétturinn var tekinn af, en hann var kannski frekar í orði en á borði fyrir.

Ég tek undir að ef það fer ekki að þokast og við sjáum ekki árangur í því að semja um þær álagsgreiðslur sem út af standa eða almennt, þá verður að líta til annarra lausna, hvort sem það eru nýjar tengingar eða einfaldlega bara nýr hugsunarháttur varðandi það hvernig við ætlum að semja við lögreglumenn til frambúðar svo að allir gangi sáttir frá borði. Ég tel mikilvægt að samningar náist sem fyrst, bind vonir við að það geti gengið. En það verður auðvitað að horfa á heildarmyndina og þær takmarkanir sem samningar við aðra ríkisstarfsmenn setja þessum viðræðum líkt og öðrum.