150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[11:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M):

Forseti. Við höldum hér áfram að ræða samgönguáætlanirnar tvær. Þetta eru gríðarstór mál. Það var áhugavert samt sem áður sem ég hlustaði eftir í svörum hæstv. ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma áðan. Hann undirstrikaði að þau verkefni sem eru næst í tíma komast áfram þó að þetta mál festist eitthvað örlítið. Þau mál detta ekki upp fyrir. Það staðfestist í rauninni áðan, ekki síst vegna þess að það er búið að finna og búið að samþykkja a.m.k. 15 milljarða í hönnun og framhald þessara verkefna. Það verður því ekkert stopp þó að samgönguáætlanir tefjist örlítið hér í þinginu. En það er að sjálfsögðu mikilvægt fyrir okkur að klára þetta og við munum reyna að gera það innan tilsetts tíma, enda stutt eftir af þingstörfum.

Hér hafa verið fluttar ekkert mjög margar ræður af hálfu stjórnarliða, því miður. Athyglisverðasta ræðan verður þó að teljast hafa komið frá hv. þm. Sigríði Á. Andersen þar sem hv. þingmaður fór töluvert yfir það stopp sem hefur orðið í framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu undanfarin ár vegna áherslu borgarinnar sér í lagi á almenningssamgöngur og fjármunir settir í þær af hálfu ríkisins frekar en í verklegar framkvæmdir til að greiða fyrir samgöngum höfuðborgarbúa.

Þetta þarf allt að fara saman, herra forseti. Það þarf að fara saman að við séum með almenningssamgöngur sem nýtast þeim sem þær þurfa að nýta og vilja nýta og að greiða leið fyrir þá sem þurfa og vilja nýta einkabílinn. Það hefur verið svolítið sérstakt að horfa upp á borgarstjórnarmeirihlutinn undanfarin ár sérstaklega, sem hefur viljað taka af ráðin hjá fólki um það hvernig það ferðast á milli staða innan höfuðborgarsvæðisins. Hann hefur reynt fá menn til að fara yfir í strætisvagna eða nota almenningssamgöngur með því að þrengja að einkabílnum í staðinn fyrir að draga upp þá mynd sem á að vera af almenningssamgöngum, jákvæð notkun, tímasparnaður, sparnaður af því að þurfa ekki að eiga bíl o.s.frv. Það hefur vantað jákvæða mynd af almenningssamgöngum. Ég held að það hefði verið betra, herra forseti, að kenna fólki að nota strætó, ná nýtingu á honum og mögulega bæta tíðnina áður en farið er af stað með þær miklu fjárfestingar sem gert er ráð fyrir í þessari samgönguáætlun og tengdum málum.

Þetta er samhljóma því sem hv. þm Sigríður Á. Andersen sagði í ræðu sinni, það væri byrjað á röngum enda. Hv. þingmaður talaði um þessa svokölluðu borgarlínu sem óútskýrt fyrirbæri. Vitanlega er nokkuð til í því þar sem margar myndir hafa verið teiknaðar upp af þessu. Það nýjasta er að nokkrir stjórnmálamenn, bæði í borginni og hér á þingi, hafa viðrað að það eigi að taka upp lestarkerfi. Mér finnst þetta eiginlega bara til þess að rugla umræðuna að vera að tala allt í einu um að það eigi að taka upp lestarkerfi samhliða borgarlínu eða hvort það er hluti af borgarlínu. Það er ekki til þess að greiða málinu leið að flækja það enn frekar. En hvað um það.

Hér er enginn að deila um að það þurfi að vera til öflugar almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæðinu. Um það snýst málið ekki heldur hvernig umgjörðin um skuldbindingar ríkisins er í þeirri framkvæmd. Auðvitað getum við verið ósammála um það hvaða leið er farin, hvort það er borgarlína eða að bæta strætó. En í þeirri umgjörð sem búin er til er ríkissjóður skilinn eftir, það má kannski orða það þannig, eða alla vega er mörgum spurningum ósvarað varðandi skuldbindingar og ábyrgðir ríkissjóðs. Ég vonast til þess að fljótlega komi fram ákveðnar skýringar og vangaveltur um það hvernig mál þetta geti þróast og í hvaða átt sem geri að verkum að við getum horft til þess að fá botn í það hvernig umgjörðin á að vera. Ég bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.