150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:08]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Komið hefur til tals meðan á þessari umræðu hefur staðið hversu mikilvæg hún sé og að nauðsynlegt sé að ræða gaumgæfilega þær tvær áætlanir sem hér liggja fyrir. Einnig hefur allnokkuð verið fjallað um það í ræðum nokkurra þeirra sem tekið hafa til máls að Sjálfstæðisflokkurinn talar ekki einni röddu um samgönguáætlanirnar, sérstaklega þegar minnst er á þá framkvæmd sem yfirskyggir eiginlega báðar áætlanir, þ.e. áætlun um borgarlínu. Það segir sína sögu að í Morgunblaðinu í dag er grein eftir Eyþór Arnalds, sem er oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, og í blaðinu er einnig vísað í blogg eftir ágætan verkfræðing, Geir Ágústsson. Sá ágæti maður segir að stjórnmálamenn séu aðallega í því að stinga upp á endalausum leiðum sem snúist aðallega um að hægja á fjölskyldubílnum og sóa tíma fólks í umferðinni eða við biðskýli í roki og rigningu. Geir segir, með leyfi forseta:

„Það má til dæmis stinga upp á því að setja þriggja stafa milljarðaupphæð í að byggja lestarteina og setja á þá lestarvagna.“

Á sínum tíma þegar borgarlínuhugmyndin var seld kjósendum, reyndar minni hluta kjósenda í Reykjavík, voru auglýsingarnar með þeim hætti að halda mátti að þar væri um lestarvagna að ræða. En auðvitað var það ekki svo. Geir segir hér, með leyfi forseta:

„Menn eru nú þegar að vinna að áætlunum um að setja risastóra strætisvagna á umferðargötur og ýta fjölskyldubílnum inn á færri akreinar.“

Hann nefnir líka hugmyndina um sporvagninn, öðru nafni léttlest, sem fram kom á sínum tíma og var nú andvana fædd, og að láta strætisvagnana stöðva umferðina um leið og þeir leggja við strætóskýlin. Þessi ágæti verkfræðingur furðar sig á því.

Ég nefndi tvö slík dæmi í ræðu síðast þegar við fórum yfir þetta mál; annars vegar það að í Borgartúni, eftir að það var þrengt, er það þannig að þegar strætisvagnar þurfa að taka upp fólk eða farþegar fara út þá stöðvast öll umferð. Og hins vegar er það svo við Hagatorg, sem er hringtorg en einhverjir úr borgarstjórnarmeirihlutanum hafa valið að kalla það hringlaga akbraut. Ég veit ekki alveg, herra forseti, hver munurinn er á hringlaga akbraut og hringtorgi. En jú, það var gert til þess að geta sett strætóstoppistöð í hringtorgið. Bílar sem aka á eftir strætisvagni sem stöðvar fyrir framan Hótel Sögu eru þá stopp í hringtorginu og enginn kemst fram hjá.

Svo virðist vera að borgarlínan eigi að vera tröllaukin útgáfa af strætisvögnum. Ef vagnarnir verða kannski tvöfaldir að lengd á við þá sem nú eru notaðir í Reykjavík sé ég fyrir mér hvernig slíkur vagn stöðvar umferð um Hagatorg. Það er því ekki að ófyrirsynju að Geir Ágústsson verkfræðingur klykkir út með þessum orðum, með leyfi forseta:

„Ég vil því leggja til að yfirvöld skoði alvarlega kosti þess að ýta undir notkun hestvagna. Þeir menga ekki, geta nýst á öllum tegundum vega, tryggja að farþegar fái mikið af fersku lofti og er tiltölulega ódýrt að setja í fjöldaframleiðslu sem getur notast við umhverfisvænt timbur.“

Svo mörg voru þau orð.

Herra forseti. Þar sem ég er ekki búinn að fara yfir þetta efni verð ég að biðja hæstv. forseta um að setja mig á mælendaskrá að nýju.