150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:19]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Það eru erfiðir tímar, það er atvinnuþref, eins og segir í ljóði skáldsins. Við glímum við verstu efnahagskreppu í manna minnum með hátt í 10% samdrátt í framleiðslu samkvæmt spám. Skrúfast hefur fyrir gjaldeyristekjur þjóðarinnar að verulegu leyti og er það aðeins vegna sérstakra ástæðna sem gengi krónunnar hefur ekki gefið meira eftir með tilheyrandi afleiðingum fyrir verðlagið. Atvinnuleysi er í óþekktum hæðum. Taka mun fleiri ár að vinna upp það tjón sem við höfum orðið fyrir.

Herra forseti. Við stöndum frammi fyrir mikilli framkvæmdaþörf í landinu vegna innviða af hvers kyns tagi. Hlaupa fjárhæðir í því efni á hundruðum milljarða. Í höfuðborginni hefur ríkt svokallað framkvæmdastopp með alvarlegum afleiðingum sem birtast í umferðarteppum, skertu öryggi í umferðinni og flótta fyrirtækja úr borginni. Það er við þær aðstæður, herra forseti, sem ríkisstjórnin ákveður nú að setja 50 milljarða kr. í svokallaða borgarlínu. Ég þarf ekki að rifja það upp, svo rækilega sem við höfum farið yfir það hér, þingmenn Miðflokksins, hversu harðlega þeirri hugmynd hefur verið andmælt af fræðimönnum og öðrum sérfræðingum og kunnáttumönnum.

Til að mynda segir sérfróður verkfræðingur á sviði umferðarmála að hægt sé að ná markmiðum um bættar almenningssamgöngur með því að verja til verkefnisins nokkrum milljörðum, eins og hann orðaði það, orðrétt, forseti, í stað tuga milljarða sem vafalaust er vanáætluð fjárhæð. Þeim hefur ekki svo mikið sem verið svarað ábendingum þessa sérfræðings. Það hefur enginn hér af hálfu þeirra sem standa að þessu máli útskýrt af hverju þessi greining og ályktun þessa kunnáttumanns fái ekki staðist. Hann byggir þá greiningu á því að það svæði sem taka á undir borgarlínu í þeim áformum sem hér eru uppi feli í sér að meira en helmingur af leið borgarlínu sé í sérrými. Hann bendir á fyrirmyndir í Bandaríkjunum og Kanada þar sem það hlutfall er mun lægra og á það sérstaklega við um litlar borgir eins og hlýtur þá að eiga við um Reykjavík.

Herra forseti. Þetta mál er svo vanbúið og ég ætla að segja það hér að það kemur ekki til nokkurra einustu mála. Miðflokkurinn mun aldrei standa að fjáraustri í þeim mæli sem hér er lagt upp með. Ekki liggja fyrir neinar haldbærar áætlanir um kostnað. Það eru engar haldbærar áætlanir um ástæður sem gætu valdið frávikum frá kostnaðaráætlun. Um arðsemisgreiningu er ekki að tefla. Það er of viðkvæmt til að það megi segja það, en auðvitað mun þetta raska mjög annarri umferð vegna þess að þetta mun einfaldlega taka aðra akrein frá umferð þar sem því er til að dreifa. Fram hefur komið að rekstraráætlun er ekki fyrir hendi. Sjálfstæðisflokkurinn er klofinn í málinu.

(Forseti hringir.) Ég bið hæstv. forseta að setja mig á mælendaskrá að nýju.