150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[16:41]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir orð hv. þm. Sigurðar Páls Jónssonar þegar hann sagði að við myndum auðvitað fagna öllum umbótum í samgöngukerfinu en við værum ekkert ofsalega hrifin af því að verið væri að setja mikið fjármagn í borgarlínu og að allt skuli þurfa að hverfast um hana. Það er líka spurning hvort rétt sé að hlutafélagavæða almenningssamgöngur ef út í það er farið.

Ég ætla aðeins að fjalla um það sem kallast grunnnet samgangna. Ég hef talað um flugvelli sem tilheyra grunnnetinu og talið þá upp en það eru allir áætlunarflugvellir og helstu flugleiðir og helstu hafnir, ferju- og siglingaleiðir meðfram ströndinni og siglingaleiðir og flugferðir til og frá landinu. Það er einmitt þetta grunnnet og uppbygging þess sem er forgangsatriði þegar við erum að ræða um forgangsráðstöfun fjármuna. Grunnnet samgangna skiptist á milli vega og hafna og flugvalla og er mjög umfangsmikið. Ég les hér að 1.191 brú er í þjóðvegakerfinu og þar af erum við með 677 einbreiðar. Frá því ég man eftir mér hefur verið talað um að útrýma þurfi einbreiðum brúm en af þessum 677 einbreiðum brúm eru 36 brýr á hringveginum eða voru það sl. haust. Síðan er ætlast til þess að allir byggðakjarnar með u.þ.b. 100 íbúa eða fleiri tengist grunnneti á landi og það er fjallað um það og tiltekið að mikilvægasta grunnnetið er líka það sem talið er mikilvægt fyrir fiskveiðar, ferðaþjónustu og flutninga til og frá landinu og flugvellir með virku áætlunarflugi teljast í grunnneti.

Vegakerfið er samt sem áður umfangsmesta samgöngukerfið í grunnnetinu og þar af leiðandi langdýrast í uppbyggingu, viðhaldi og rekstri. Við vitum að það hefur setið á hakanum að ráðast í viðhald á vegum landsins og það er eiginlega það sem ég set alltaf í samhengi við alla þá fjármuni sem eiga að fara í borgarlínu og það aðeins í stofnkostnað. Á landinu eru vegir sem eru stórhættulegir sem ráðast þarf í lagfæringar á og mér finnst að það eigi að vera í forgangi.

Litlar breytingar hafa verið gerðar á grunnneti samgangna en reyndar er tiltekið að neyðarbrautinni var lokað en annars hefur lítið gerst. Það hefur verið framkvæmdastopp alls staðar og mikil viðhaldsþörf er uppsöfnuð. Talað er um að ráðast þurfi í stórátak. Ef við ræðum aðeins um vegagerð þá skiptast framkvæmdir á vegakerfinu í viðhald og nýframkvæmdir. Viðhald vega tekur til alls viðhalds vegakerfisins, svo sem viðhalds og endurnýjunar bundins slitlags og malarslitlags, styrkinga og endurbóta, viðhalds brúa, varnargarða, vegganga öryggisaðgerða, vatnsskemmda og fleiri hluta, það er að mörgu að hyggja. Það eru ákveðin viðhaldsmarkmið tekin til (Forseti hringir.) sem ég fjalla um í næstu ræðu.

Ég bið hæstv. forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá.