150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[18:44]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla aðeins að grípa á lofti boltann sem hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson talaði um í ræðu sinni og grípa aðeins niður í nefndarálit meiri hluta. Þar kemur fram viljinn sem var greinilega ríkjandi í nefndinni. Mér finnst, og hef talað um það í ræðum, að nefndin hafi unnið mjög vel úr annars mjög þröngri samgönguáætlun þar sem mörg verkefni voru færð aftar. Nefndin hefur síðan hnikað þeim til og gert eins gott úr og efni stóðu til. En hér er kafli sem heitir Vinna nefndarinnar og þar segir, með leyfi forseta:

„Á fundum nefndarinnar voru hin ýmsu sjónarmið reifuð er varða samgönguáætlanir til fimm og 15 ára. Bar þar hæst að nauðsyn væri að ráðast í átak í vegaframkvæmdum og brýnt að framkvæmdahraði yrði meiri en áætlað var í þeirri samgönguáætlun sem samþykkt var í febrúar árið 2019. Fjárfestingarþörfin í vegakerfinu er nálægt 400 milljörðum króna. Þá var einnig rætt um þörfina á að bæta hafnaraðstöðu víða um land, styrkja innanlandsflug og efla almenningssamgöngur á landi og sjó.

Nefndin undirstrikar að vegakerfið er stærsta einstaka eign ríkisins og mikilvægt er að halda því við til að standa vörð um fyrri fjárfestingar. Þá verður að taka mið af því að nýframkvæmdir hafa í för með sér þörf fyrir aukna þjónustu og viðhald og verður því að gera ráð fyrir kostnaði vegna þess. Nefndin telur brýnt að brugðist verði við vandanum sem safnast hefur upp undanfarin ár og unnið markvisst að því að bæta vegakerfið og samgöngur eins hratt og kostur er með tilliti til hagkvæmni, markmiða í loftslagsmálum, jafnræðis og öryggissjónarmiða. Atvinnusvæði hafa stækkað, og fólki sem býr í dreifbýli en vinnur í þéttbýli fjölgar. Greiðar samgöngur eru lykilþáttur í heilbrigðisþjónustu landsmanna, innan og milli landshluta og milli heilbrigðisstofnana og beggja meginsjúkrahúsa landsins á Akureyri og í Reykjavík.“

Þetta er náttúrlega grundvallarsjónarmið sem ég held að við séum öll sammála um enda hefur það komið margoft komið fram að enginn er ósammála því að fara í þær framkvæmdir hér á höfuðborgarsvæðinu sem hafa legið í láginni mjög lengi. En vandamálið er þessi óunni bastarður, leyfi ég mér að segja, sem borgarlínan er. Hún er óútfærð og ófjármögnuð en talað er um að kostnaðurinn geti verið 50–70 milljarðar. Og eins og kom fram í ræðu hv. þm. Ólafs Ísleifssonar áðan, sem vitnaði í grein eftir fyrrverandi ráðherra og borgarstjóra, Davíð Oddsson, mætti sennilega margfalda þetta með pí eða rúmlega þremur. Ég er kannski ekki með þau rök alveg á hreinu en það eru yfir 200 milljarðar og þeir eru ekki gripnar upp af götunni. Það er ekkert fast í hendi með það hvort þessi rekstur stæði undir sér. Miklu meiri líkur eru á því að þetta yrði rekið með tapi miðað við hvernig almenningssamgöngur hafa verið undanfarin ár.

Ég bar þá von í brjósti að við gætum sameinast um að fara í flýtiframkvæmdir, eins og talað var um fyrir tveimur, þremur árum síðan. Þá væri hægt að koma til móts við þá ríku þörf að bæta samgöngukerfi landsins. Ferðafólki hefur fjölgað gríðarlega. Þótt það sé ekki akkúrat þessa stundina voru rúmar tvær milljónir ferðamanna hér á landi árið 2018. Þungaflutningar hafa aukist mikið og vandræðin á vegum landsins eru að aukast. Þörfin er því brýn og allir eru sammála um það. En það þarf að vera eitthvert vit í því hvernig hlutirnir eru útfærðir áður en tekin er ákvörðun um að setja í lög það sem á að gera.

Hæstv. forseti. Heldurðu að þú vildir ekki setja mig aftur á mælendaskrá?