150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[19:38]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég hef í þeim ræðum sem ég hef hingað til flutt einblínt nokkuð á verkefni sem eru á höfuðborgarsvæðinu eða tengd því með einum eða öðrum hætti. Og víst er að það sem mig langar að fjalla um í þessari ræðu er vissulega þáttur sem er tengdur höfuðborgarsvæðinu og jafnframt öllu landinu. Já, ég er að tala um Reykjavíkurflugvöll í Vatnsmýrinni. Ekki er nóg með það að Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýri sé mjög stór vinnustaður með 600 störf eða svo, hann er líka lífæð flugsamgangna innan lands. Núverandi borgarstjórnarmeirihluti hefur unnið að því markvisst í nokkuð mörg ár að rífa þennan flugvöll niður, svona í sneiðum, þannig að hann verði ónothæfur. Núna er fyrirhuguð ein slík sneið. Það á að færa byggð í Skerjafirði alveg að öryggissvæðinu og reyndar nær og fyrstu drög innifólu reyndar það að vegur yrði lagður í gegnum flugskýli Flugfélagsins Ernis. Á sama tíma leggja borgaryfirvöld og ríkisstjórnin 200 millj. kr. í að kanna þann möguleika að reisa nýjan flugvöll í 20 km loftlínu frá alþjóðaflugvellinum í Keflavík í vindasömu umhverfi — þetta fullyrði ég, hafandi keyrt þessa leið á hverjum degi fram og til baka í ellefu ár — og ofan á vatnsverndarsvæði. Í þetta ætla yfirvöld að setja 200 millj. kr.

Herra forseti. Mín spá er sú að ef Reykjavíkurflugvöllur í Vatnsmýrinni verður lagður af þá verða það um leið endalok innanlandsflugs eins og við þekkjum það. En eins og þessi ríkisstjórn gerir oft þá er eins og vinstri höndin viti ekki hvað sú hægri gerir og öfugt. Meðfram því að ríkisstjórnin horfir á að verið sé að þrengja í sífellu að Reykjavíkurflugvelli ætlar hún jafnframt að taka upp eitthvert fyrirbæri sem kallað hefur verið skoska leiðin, en virðist ekki eiga að virka hér eins og hún virkar í Skotlandi en látum það liggja á milli hluta. Á sama tíma á að þrengja að þessum velli sem er lífæð fólksflutninga í lofti innan lands. Nota bene, ef ég veit rétt, var þessi völlur og staðsetning hans ein af forsendum fyrir því að byggja Landspítala – háskólasjúkrahús á þeim stað sem fyrirhugað er og verða sennilega dýrustu mistök Íslandssögunnar þegar upp verður staðið nema borgarlínan toppi það.

Ég verð að spyrja, herra forseti: Hvað verður um fjárfestingu í þessum spítala ef flugvöllurinn verður smátt og smátt hrakinn úr Vatnsmýrinni og gerður óstarfhæfur? Menn hafa talað um þyrluflug en í fyrsta lagi hentar það ekki alltaf og í öðru lagi er það miklu hægfara farartæki heldur en flugvél. Það hefur verið bent á varðandi þyrlupallinn sem menn hafa kynnt, sem á að vera á þaki spítalabyggingarinnar, að það sé einfaldlega óvinnandi vegur að byggja hann upp eins og menn hafa gert ráð fyrir. Þannig að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík er að reyna að gera Reykjavík að svefnbæ með því að kyrkja allar samgönguæðar innan borgarinnar og höfuðborgarsvæðisins og með því að þrengja svo að flugvellinum að hann verður væntanlega óstarfhæfur innan nokkurra ára. Þetta er því sárara, herra forseti, vegna þess að gerðir hafa verið líklega þrír samningar, ef ég man rétt, um Reykjavíkurflugvöll og framtíð hans sem borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík hefur byrjað að svíkja áður en blekið þornaði á viðkomandi samningum.

Ég ætlaði að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, en ég sé að ég kemst ekki lengra á þeim tíma sem mér er skammtaður og bið því um að ég verði settur á mælendaskrá aftur.