150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Forseti. Ég var að byrja að fara yfir hvers vegna tvöfalt eða jafnvel þrefalt strætisvagnakerfi á höfuðborgarsvæðinu á Íslandi fari vísast, ég held að óhætt sé að segja alveg örugglega, langt fram úr kostnaðaráætlun og verði ekki bara tvöfalt eða þrefalt dýrara en núverandi kerfi heldur jafnvel margfalt dýrara. Og þá erum við komin að rekstrinum. En það er einmitt mjög athyglisvert, svo ekki sé fastar að orði kveðið, að í þessari samgönguáætlun þar sem gert er ráð fyrir gríðarlega dýrum framkvæmdum við borgarlínu — svipuð verkefni hafa iðulega farið langt fram úr áætlun í öðrum borgum í Evrópu, meira að segja í Suður-Afríku, Austur-Asíu, Bandaríkjunum og víðar — að þrátt fyrir að menn séu að kasta fram slíkri hugmynd, gríðarlega dýrri hugmynd sem verður eflaust margfalt dýrari, þá sé bara litið fram hjá rekstrarkostnaði. Hvers vegna verður rekstrarkostnaður tvöfalds eða þrefalds strætókerfis svona miklu meiri en við höfum horft á fram til þessa? Þetta kerfi hefur verið dýrt, ég held að enginn efist um það, og ríkið hefur þurft að koma að því. Það er vegna þess að eins og strætisvagnakerfið er skipulagt núna fara vagnarnir tiltölulega langa leið frá punkti A til B og svo skarast leiðirnar. Sumar stoppistöðvar eru sérstakar skiptistöðvar, menn þekkja auðvitað Hlemm, Lækjartorg, Kringluna og slíkt, en segja má að þessu sé stillt upp svona nokkurn veginn eins og neðanjarðarlestarkerfum sem menn kannast við úr mörgum erlendum borgum. Það hefur reynst mjög erfitt að viðhalda nægilega tíðum ferðum, a.m.k. á sumum tímum dags, og kerfið reynst mjög dýrt. Hvað ætli gerist nú þegar strætisvagnarnir, þessir hefðbundnu strætisvagnar, verða bara hverfisvagnar og borgarlínan bætist svo við með löngu leiðirnar? Þá mun hver og einn strætisvagn einungis nýtast á mjög afmörkuðu svæði því að hugmyndin er sú að hverfisvagnarnir safni fólki saman í hverju hverfi fyrir sig, skili því að borgarlínunni, borgarlínan flytji farþegana á næsta stað þar sem farþeginn þarf jafnvel að taka annan strætisvagn, annan hverfisvagn, til að komast á sinn áfangastað. Þá verðum við komin með fjölmarga strætisvagna hringsólandi um ákveðin hverfi. Dettur mönnum í hug að það verði hagkvæmt ef ekki er einu sinni hægt núna að reka strætisvagna á hagkvæman hátt á þessum helstu samgönguásum milli þéttbýlustu svæðanna?

Þegar farið verður að halda úti vögnum um allt höfuðborgarsvæðið, vögnum sem eru stöðugt á ferð um hverfið með væntanlega tiltölulega fáum farþegum, mun sá rekstur augljóslega verða hlutfallslega miklu dýrari en þeir vagnar sem við höfum þó núna og fara um helstu samgönguleiðir og taka upp fólk á þeim stöðum þar sem farþegar eru líklegastir til að mæta í strætisvagninn. Í stað þessa dýra kerfis sem við erum með núna, kerfis sem hefur reynst erfitt að halda úti, tekur við miklu dýrara kerfi hverfisvagna og svo bætist borgarlínan við þann kostnað. Bara hliðarkerfið verður því miklu dýrara en aðalkerfið er núna og svo bætist borgarlínan sjálf og kostnaðurinn við hana ofan á. Eins og ég gat um í upphafi hefur einmitt slíkt kerfi reynst mjög þungt í vöfum og dýrt, jafnvel í borgum sem eru mun þéttbýlli, mun þéttbyggðari en höfuðborgarsvæðið á Íslandi. Ríkið horfir því núna fram á að þurfa til framtíðar, ásamt sveitarfélögunum sem standa að þessu, að reka strætisvagnakerfi sem verður enn dýrara en það er í dag og svo rándýrt borgarlínukerfi sem enginn virðist hafa hugmynd um hvað muni kosta í rekstri.