150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[20:31]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Frú forseti. Í síðustu ræðu minni fór ég yfir gjaldtökuóreiðuna, þ.e. framsetningu ríkisstjórnarinnar á hugmyndum um gjaldtöku veggjalda sem birtist í þremur stjórnarmálum. Ég var einnig búinn að fara yfir það að Sjálfstæðismenn virðast hafa æðimisjafnar skoðanir í þessu máli, á framkvæmdum á höfuðborgarsvæðinu. Ég get ekki annað en tekið undir orð hv. þm. Ólafs Ísleifssonar þar sem hann segir að Sjálfstæðismenn séu klofnir ofan í rót í þessu máli. Ég var kominn að ræðu hv. þm. Sigríðar Á. Andersen á þingi, sem ég er með hér. Hún var að ræða um þetta framkvæmdastopp sem er búið að vera á höfuðborgarsvæðinu og setur það í samhengi við samgönguáætlun og hugmyndir um borgarlínu. Ég verð bara að segja það, frú forseti, að þetta er ræða sem ég hefði jafnvel getað haldið sjálfur úr þessum stól. Með leyfi forseta, þá segir hv. þm. Sigríður Á. Andersen sl. fimmtudag:

„Það er full ástæða til að árétta það sem áður hefur komið fram í ræðum margra þingmanna að hér í Reykjavík hefur síðasta áratug verið framkvæmdastopp. Það er vegna þess samkomulags sem var gert á sínum tíma um það að veita engu fé til framkvæmda í Reykjavík heldur veita meira fé en áður hafði verið gert til almenningssamgangna í þeirri viðleitni að reyna að auka hlutdeild þeirra í öllum ferðum innan höfuðborgarsvæðisins. Þetta hefur haft afdrifaríkar afleiðingar í Reykjavík. Þar ríkir ófremdarástand í samgöngumálum, algert ófremdarástand.“

Síðan klykkir hún út með því að segja að það sé mjög brýnt að fara í vegaframkvæmdir í Reykjavík; hv. þingmaður tekur sem sagt undir að það sé mjög brýnt að fara í framkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu, það hafi verið framkvæmdastopp. Menn upplifa sig í þeirri stöðu, borgarbúar og nágrannasveitarfélögin, að vera hér í einhvers konar herkví. Þeir eru í herkví og til að losa sig út úr henni verða þeir að reiða fram gjald sem ég kalla lausnargjald. Lausnargjaldið er hlutdeild í borgarlínu en mest af því fé sem á að renna til borgarlínu kemur frá almenningi sjálfum í formi svokallaðra flýtigjalda, því að þar er langstærsti hlutinn sem á að koma úr gjaldtöku af þeim sem fara hér um götur höfuðborgarinnar og einnig er verulegur hluti sem reiknað er með að komi úr hendi ríkisins.

Þetta er það furðulega í málinu, frú forseti, að þingið og ríkisstjórnin séu að stökkva á þennan vagn þrátt fyrir orð þingmanna og ráðamanna og málsmetandi manna hér í borg, Sjálfstæðismanna, um þetta mál. Sjálfstæðismenn tala um að þetta sé algerlega óútskýrt. Þeir tala um að það vanti framkvæmdaáætlun og rekstraráætlun o.fl., nákvæmlega eins og við Miðflokksmenn höfum verið að benda á, þeir taka undir það. Í hvers lags gíslingu hafa menn verið ef þeir eru tilbúnir að leggja fram þetta gjald? Í hvers lags gíslingu hafa menn verið hér í borginni? Ég bara spyr. Til að byrja með eru menn tilbúnir að henda 50 milljónum í borgarlínu. Þeir hafa upplifað sig í alveg svakalegri prísund, algerri prísund, í herkví, og þeir borga sig út með lausnargjaldinu sem er borgarlína. 50 milljarðar, og ég hef heyrt tölur upp í 70 og 80 milljarða, einhverjir eru búnir að reikna sig upp í þær tölur nú þegar. Hversu dýrt verður þetta að endingu?

Hv. þm. Sigríður Á. Andersen sagði í ræðu sinni sl. fimmtudag, með leyfi forseta:

„En þegar kemur að Reykjavík er þar einkum gert ráð fyrir hinni svokölluðu borgarlínu sem er algjörlega óútfært fyrirbæri.“

Ég kalla eftir því að Sjálfstæðismenn í ríkisstjórn komi hér og skýri þetta betur fyrir okkur og félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum, þetta algjörlega óútfærða fyrirbrigði.