150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[21:14]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Frú forseti. Þegar teknar eru ákvarðanir á vettvangi þjóðmála, og raunar hvar sem er, er mikilvægt að leggja þekkingu til grundvallar. Við Miðflokksmenn höfum fjallað allítarlega um sjónarmið verkfræðinga sem fara mjög hörðum orðum um borgarlínu. Ég er hér með ritgerð til BS-prófs við hagfræðideild Háskóla Íslands sem er um þjóðhagslega hagkvæmni borgarlínu. Leiðbeinandi við þá ritgerð er prófessor Ragnar Árnason. Þessi ritgerð er ekki góð tíðindi fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Niðurstaða höfundar eftir ítarlega greiningu er sú sem kemur fram á bls. 51, þ.e. að ekki sé þjóðhagslega hagkvæmt að starfrækja borgarlínu á höfuðborgarsvæðinu. Skoða þurfi aðra möguleika til að koma til móts við það mikla umferðaröngþveiti sem höfuðborgarsvæðið býr við á háannatíma. Leiðbeinandi við þessa ritgerð er enginn óvinur Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur átt samleið með honum lengi og sat á vegum Sjálfstæðisflokksins í bankaráði Seðlabankans.

Tíðindin eru heldur ekki góð fyrir þá sem leggja upp úr umhverfismálum og loftslagsmálum sérstaklega. Í grein eftir Jónas Elíasson um borgarlínuna í Morgunblaðinu í dag er vikið að eldsneytinu sem fer í súginn með borgarlínu. Hann segir að ætla megi að stíflurnar taki nú allt að 20 tonn á dag í aukalegri bensíneyðslu, hann er að tala um stíflurnar í umferðinni. Allt að 20 tonn á dag í aukalega bensíneyðslu. Hann segir að fyrir nokkrum árum hafi þetta verið um 10 tonn. Prófessor Jónas Elíasson, sem um langt skeið var prófessor í verkfræði við Háskóla Íslands, segir að þetta séu um 2% af bensíneyðslu landsins. Þessi aukaeyðsla vegna umferðaröngþveitis er 2% af bensíneyðslu landsins miðað við eldsneytisbókhald Orkustofnunar. Höfundur segir að lagfæring á þessu sé líklega árangursríkasta framkvæmd í umhverfismálum sem Ísland eigi kost á um þessar mundir. Þarna er verkefni fyrir þá sem vilja grípa til raunhæfra aðgerða en ekki sýndarmennsku í loftslagsmálum.

Það er eiginlega alveg sama hvar á málið er litið, frú forseti: Í verkfræðilegu tilliti stenst borgarlína ekki. Í hagfræðilegu tilliti fellur hún á því prófi hvort hún sé þjóðhagslega hagkvæm. Aðferðin sem höfundur þessarar lokaritgerðir til BS-prófs beitir er að bera saman kostnað annars vegar og hins vegar mögulegan ávinning reiknaðan til fjár. Niðurstaða hans, eftir að hafa gert ítarlega greiningu í þessum efnum, er að ekki sé þjóðhagslega hagkvæmt að starfrækja borgarlínu. Þetta má auðvitað vera Sjálfstæðisflokknum mjög mikið umhugsunarefni vegna þess að undir hans forystu, en hann fer með ríkisfjármálin, er ráðgert að setja 50 milljarða af ríkisfé, af almannafé, til framkvæmdar sem stenst enga skoðun og sem fellur til að mynda á því prófi sem efnt var til í hagfræðideild Háskóla Íslands.

Ég þarf að ræða þetta frekar, frú forseti, og bið um að verða settur aftur á mælendaskrá.