150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:34]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða samgönguáætlun, stærsta verkefnið og fjárfrekasta. Áform eru um svokallaða borgarlínu sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður leggi til 50 milljarða. Það er eins og ekkert hafi gerst, herra forseti, þó svo að hér hafi riðið yfir heimsfaraldur, þó svo að þróun efnahagsmála hafi snúist mjög til hins verra með stórfelldum fyrirsjáanlegum samdrætti í framleiðslu, eftir því sem spár helstu aðila standa til, sömuleiðis stórfelldur samdráttur í gjaldeyristekjum vegna þess að ferðaþjónustan er að glíma við það ástand sem menn þekkja og afleiðingar þessarar veiru. Atvinnuleysi er meira en við þekkjum almennt. Staða ríkissjóðs hefur náttúrlega snúist alveg við. Hún var tiltölulega sterk en hefur veikst að mun fyrir sakir ástæðna sem við þekkjum. Samt er eins og ekkert hafi gerst. Hér eru lögð á borð þingmanna þingskjöl þar sem er að finna hugmyndir af því tagi sem ég lýsti, að ráðast í þessa svokölluðu borgarlínu sem enginn virðist vita nákvæmlega hvað felur í sér. Það er ekki að sjá að það sé nein haldbær kostnaðaráætlun til. Um arðsemisgreiningu er ekki að ræða, það hefur enginn nefnt það nema kannski við þingmenn Miðflokksins. Það er engin greining á þeim þáttum sem gætu leitt af sér framúrakstur varðandi kostnað. Við eigum auðvitað ekki sérstaklega góðu að venjast í þeim efnum, eins og menn þekkja, og þá ekki síst ef flokkar eins og þeir sem standa að meiri hlutanum í Reykjavík eiga hlut að máli. Þessum meiri hluta tókst að eyða hálfum milljarði í að endurbyggja bragga suður í Nauthólsvík og verður auðvitað lengi minnst. Samt sem áður er þessum hugmyndum haldið til streitu. Síðan þegar bent er á að kunnáttumenn, fræðimenn, hafi uppi mjög ákveðna gagnrýni varðandi borgarlínuna, m.a. á verkfræðilegum forsendum, hagfræðilegum forsendum, þá er eins og þær ábendingar skipti engu máli. Þær eru virtar vettergis. Enginn sér ástæðu til þess til að mynda að svara ábendingu umferðarverkfræðings í grein í Kjarnanum um það að ná megi markmiðum varðandi almenningssamgöngur með því að verja til þess nokkrum milljörðum í stað þeirra a.m.k. 80 milljarða sem myndu náttúrlega enda sem miklu hærri tala þegar upp væri staðið.

Það er svolítið sérkennilegt að fara í gegnum þessa umræðu. Það er einhvern veginn eins og þeir sem eru fylgismenn málsins treysti sér ekki til að ræða kostnaðaráætlun eða frávikshættu í henni, arðsemismat eða neitt af því sem er nauðsynlegt að leggja til grundvallar þegar teknar eru ákvarðanir um svona stór og viðamikil verkefni.

En af því að það er þetta kvöld, herra forseti, þá vona ég að mér fyrirgefist þótt ég nefni að í þessum töluðu orðum eru akkúrat 50 ár síðan ungdómurinn í Reykjavík var inni í Laugardal að hlýða á hljómsveitina Led Zeppelin. Það er ógleymanlegt öllum þeim sem þar voru staddir.

Ég bið um að verða settur á mælendaskrá öðru sinni.