150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[22:40]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta um.- og samgn. (Karl Gauti Hjaltason) (M):

Herra forseti. Ég var í minni síðustu ræðu að fjalla um þá augljósu afstöðu Sjálfstæðismanna að svo virðist vera sem Sjálfstæðisflokkurinn sé illilega klofinn í afstöðu sinni til borgarlínu. Sumir benda á að hún sé algerlega óútfærð kostnaðarlega og líka varðandi reksturinn. Það minnir mig á það verkefni sem mér var falið hér áðan, herra forseti, að leita að rekstraráætlunum sem hljóta að finnast. Ég hef nú ekki komist lengra í því, herra forseti, en að búa til möppu utan um málið þar sem ég mun safna gögnum og kynna ykkur jafnóðum hvers ég verð áskynja í þessari rannsókn. Auðvitað er ég sammála því að það hljóti að finnast rekstraráætlanir þegar menn eru að fara út í framkvæmd sem kostar a.m.k. 50 milljarða en þó trúlega mun meira. Einhver sagði 80. Eru frekari boð? Einhver sagði 100 milljarða. Enginn veit í raun hvað þetta mun kosta fyrir rest. Það er algjörlega ótrúlegt ef ekki finnst rekstraráætlun.

Herra forseti. Auðvitað skil ég ótta manna við að búa til rekstraráætlun fyrir slíka línu sem kostar 80 milljarða eða meira ef þátttaka í almenningssamgöngum verður áfram 4% eins og hún hefur verið undanfarinn áratug þrátt fyrir innspýtingu í verkefnið til að auka hlut almenningssamgangna. Auðvitað skil ég þá sem sleppa því og hunsa það verkefni að gera rekstraráætlun því að útkoma slíkrar áætlunar yrði ekki glæsileg. Ég tala nú ekki um ef reksturinn ætti að standa undir þó ekki væri nema broti af stofnkostnaði, hvað þá bara daglegum rekstrarkostnaði. En það er annað mál. Auðvitað erum við í Miðflokknum fylgjandi almenningssamgöngum og líka fylgjandi því að ríki og sveitarfélög leggi til í almenningssamgöngur, svo mikilvægar eru þær. En hér erum við að tala um allt aðrar upphæðir en við höfum nokkurn tíma áður séð á Íslandi til almenningssamgangna eins og þetta verkefni ber með sér.

Þá er ég kominn að ræðu hv. þm. Sigríðar Andersen þar sem hún er að tala um lausnargjaldið sem við þingmenn Miðflokksins höfum rætt ansi mikið. Hún talar um hvað nágrannasveitarfélögin fái út úr þessum samningi. Þau fá auðvitað töluverða samgöngubót innan sinna sveitarfélaga, þ.e. Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær og Seltjarnarnes líklega. Hún segir, með leyfi forseta:

„Höfuðborgarsáttmálinn gagnast hins vegar þessum nágrannasveitarfélögum okkar ágætlega. Þau eru að fá langþráðar vegaframkvæmdir sem hafa setið á hakanum af hálfu ríkisins undanfarin ár og óska ég þeim til hamingju með það. Í ofanálag fá þau þessa borgarlínu sem mér sýnist að þau þurfi lítið að leggja út fyrir, nágrannasveitarfélögin, heldur komi þetta að mestu leyti úr hendi ríkisins með einhvers konar gjaldtöku.“

Þetta er mergurinn málsins, herra forseti, og maturinn kálfsins, eins og sagt var í sveitinni í gamla daga. Það er verið að láta ríkið ganga inn í þetta verkefni sem búið er að fegra með áróðurskenndum hætti eins og ég hef margoft komið inn á. Það er verið að ginna ríkið til að taka þátt í þessu. Þá segi ég, sitjandi hér á þingi, stopp. Ég mun ekki samþykkja þetta. Ég mun ekki samþykkja að við förum í þessa vegferð, inn í þessa draumsýn sem er ekki byggð á sterkari grunni en raun ber vitni. Þarna á að leggja fram 50 milljarða og meira. Ég segi nei við því, algjörlega. Þetta er lausnargjaldið sem ríkið er að greiða og nágrannasveitarfélögin og almenningur í þeirri von, herra forseti, að vegakerfið á höfuðborgarsvæðinu taki einhverjum framförum.