150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:12]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég var í síðustu ræðu að ræða um flugmál í samgöngum og mig langar í þessari ræðu að fara yfir í ferðaþjónustuna. Hún tengist vissulega fluginu en er þó líka á jörðu niðri, á vegum landsins. Þar koma einnig inn gjaldtökur og innheimta af því að standa straum af samgöngum.

Í umsögn Samtaka ferðaþjónustunnar segir, með leyfi forseta:

„Hagsmunir íslenskrar ferðaþjónustu skarast óhjákvæmilega við alla flokka samgangna og þá ekki síst í ljósi markmiðs sem SAF og stjórnvöld hafa unnið að þess efnis að tryggja beri æskilega dreifingu ferðamanna um landið og stuðla þannig að hagkvæmri nýtingu innviða og framleiðsluþátta.“

Áfram segir:

„Í áætlununum er töluverð áhersla lögð á fjármögnun samgönguframkvæmda með notendagjöldum og hagkvæma nýtingu samgangna. SAF hafa verið þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt og sanngjarnt að þeir sem nota samgöngumannvirki greiði fyrir uppbyggingu þeirra og viðhald.“

Og síðar segir í langtímaáætluninni, með leyfi forseta:

„Með gagnsærri verðlagningu sem tekur mið af útgjöldum vegna reksturs kerfisins og einnig ytri kostnaði svo sem slysakostnaði, mengunaráhrifum og tafatíma má hvetja til skynsamlegrar nýtingar samgöngu- og orkukosta og stuðla að auknum þjóðhagslegum ábata. Mikilvægt er að einstaklingar og heimili hafi val um ódýrari leiðir og geti þannig dregið úr samgöngukostnaði sínum.“

Síðan er umfjöllun um fyrirsjáanleika gjalda.

„Umræða um notendagjöld og veggjöld ber um þessar mundir sterkan keim af þeirri óvissu sem ríkir um hvort áform stjórnvalda muni breyta eða jafnvel auka skatta- og gjaldabyrði þeirra sem eiga og reka ökutæki. Óhætt er að halda því fram að öflun skatttekna í formi eldsneytisgjalda og annarrar skattlagningar sem tekur beint eða óbeint mið af eldsneytisnotkun ökutækja sé á fallandi fæti og ríkið muni þurfa að bregðast við því með einhverjum hætti. Hins vegar er ekki skýrt hvort ætlunin sé að veggjöld bætist við þá skattlagningu sem þegar á sér stað eða hvort þau eigi að koma í stað hennar. Á meðan svo er búa fyrirtæki og einstaklingar við óvissu sem hefur endurspeglast í neikvæðum viðhorfum til breyttrar skatta- eða gjaldtöku. Þegar nýtt fyrirkomulag fjármögnunar samgönguframkvæmda hefur svo verið spyrt saman við nýframkvæmdir getur neikvæðnin komið fram í nokkurs konar andstöðu við framkvæmdir. Að mati SAF er það pólitískt verkefni að bregðast við þessari stöðu með viðunandi hætti en það er ljóst að takast verður á við þessa stöðu af einurð.

SAF leggja áherslu á mikilvægi þess að ákvarðanir um nýtt fyrirkomulag fjármögnunar samgönguframkvæmda stuðli ekki að auknum íþyngjandi álögum á fyrirtæki í ferðaþjónustu. Hins vegar fagna samtökin þeirri áherslu sem virðist lögð á gagnsæi í langtímaáætluninni.“

Þarna kemur það fram sem hefur svolítið truflað umræðuna eða ekki leitt hana í jörð þannig að hún hafi orðið yfirveguð hvað það varðar hvernig afla eigi tekna, þ.e. hvernig fyrirkomulagið verður. Við lifum á þeim tímum að stórar breytingar eru fram undan og því er brýnt að pólitíkin geti tekið þessa umræðu sem er nauðsynleg, og (Forseti hringir.) að hún verði málefnaleg en ekki í æsingastíl.

Ég er ekki kominn mjög langt inn í umsögnina og óska þess vegna eftir því að verða settur aftur á mælendaskrá.