150. löggjafarþing — 122. fundur,  22. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[23:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Í síðustu ræðu var ég að fara yfir mjög athyglisverða greiningu Frosta Sigurjónssonar, fyrrverandi alþingismanns, á borgarlínuverkefninu. Það sem hann hefur sett fram í þessum efnum er mjög athyglisvert og hann hefur greinilega eytt miklum tíma í að kynna sér verkefnið. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það virðist því sem borgarlínan sé einstaklega óhagkvæm og áhættusöm framkvæmd og það mætti með minni útgjöldum og margvíslegum hætti ná fram mun meiri árangri í að bæta samgöngur á svæðinu.“

Hann segir beinlínis, með leyfi forseta:

„Það er rangt að borgarlína „stórauki flutningsgetu samgöngukerfisins“. Það er sáralítil eftirspurn eftir þeirri tegund flutningsgetu sem borgarlínan býður. Það er lítið gagn í því að hálftómir borgarlínuvagnar hringli um leiðarkerfið. Hins vegar er öruggt að sú tegund flutningsgetu sem nú er mjög eftirsótt mun skerðast verulega þegar akreinar sem nú nýtast fólksbílum verða helgaðar borgarlínu. Borgarlínan mun því auka umferðarteppu á álagstímum en ekki draga úr henni.“

Þetta er mjög skynsamleg ályktun fyrrverandi þingmanns, Frosta Sigurjónssonar. Hann hefur kynnt sér þetta verkefni mjög vel og sett fram mjög skynsamlegar skoðanir á því. Í greininni leggur hann út af því, sem við Miðflokksmenn höfum m.a. bent á í ræðum okkar, að borgarlínuverkefnið muni skerða núverandi vegakerfi í höfuðborginni. Það er verið að þrengja að einkabílnum og þvinga fólk til þess að nota almenningssamgöngur og strætisvagnakerfið, borgarlínukerfið sem er strætó af stærri gerðinni. Þó svo að borgaryfirvöld hafi lýst því yfir að þetta sé valkvætt o.s.frv. þá er það ekki raunin. Það er augljóst að ef þrengja á að bílaumferðinni mun það hafa þær afleiðingar að fólk verður lengur á ferðinni til og frá vinnu og til og frá heimili og þetta er gert í þeim tilgangi að fólk sjái sér hag í því að taka þessa strætisvagna. Þetta er ekkert annað en neyslustýring í samgöngukerfinu sem okkur í Miðflokknum hugnast ekki. Það er hægt að leysa ferðatímaþáttinn á miklu fljótlegri máta en með borgarlínunni, t.d. með því að gera mislæg gatnamót og endurbæta stofnbrautir, hvort tveggja brýn verkefni sem hafa setið á hakanum vegna þess að allt púðrið hefur farið í að reyna að fá fólk til að nota almenningssamgöngur og þetta strætisvagnakerfi meira en það hefur gert. Það hefur ekki borið árangur.

Herra forseti. Það er staðreynd að það hefur nánast ekkert tekist að fjölga farþegum með strætó. Það var lagt í heilmikinn tilkostnað af hálfu ríkisins og borgaryfirvalda en árangurinn er mjög lítill og verða menn ekki að horfa aðeins í það? Hver er reynslan? Reynslan er sú að það er mjög erfitt að fá Íslendinga til þess að nota almenningssamgöngur í jafn ríkum mæli og nauðsynlegt er til þess að þetta verkefni sem heitir borgarlína þjóni tilgangi sínum. En stjórnarmeirihlutinn í Reykjavíkurborg þráast við og nú ætlar ríkisvaldið og fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins að hlaupa undir bagga með borginni og fjármagna þetta gæluverkefni borgarstjórnarmeirihlutans í Reykjavík þótt engin haldbær áætlun liggi fyrir um hvernig rekstri verði háttað og hvað þetta komi til með að kosta í framtíðinni. Nú þegar eru greiddar verulega háar fjárhæðir með strætisvagnakerfinu og alveg ljóst að það muni einnig þurfa að gera með þetta verkefni.

Herra forseti. Ég er rétt byrjaður að fara yfir þessa áhugaverðu grein eftir Frosta Sigurjónsson, fyrrverandi alþingismann, og óska eftir að verða settur aftur á mælendaskrá.