150. löggjafarþing — 122. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[01:13]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Nú er ég komin með tillögu til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Til að gera langa sögu stutta þá fjallar þessi áætlun um sömu yfirflokka eða markmið sem ég fór yfir í ræðum fyrr í kvöld þegar ég fjallaði um heildarstefnu um almenningssamgöngur á milli byggða. Áætlunin byrjar á sama hátt, yfirkaflinn heitir Almenn samgönguverkefni, og svo byrjar þetta; markmið um öryggi í samgöngum, markmið um hagkvæmar samgöngur, markmið um umhverfislega sjálfbærar samgöngur og markmið um jákvæða byggðaþróun. Þetta eru nokkurn veginn sömu þættir og rætt er um í heildarstefnunni um almenningssamgöngur milli byggða, sem 15 ára áætlunin er með hjá sér líka. Ég ætla ekki að dvelja mjög lengi við það.

Síðan er nokkur útlistun á hlutverki þeirra stjórnsýslueininga sem fara með samgöngumál. Það er byrjað á Samgöngustofu og fjallað um skatttekjur sem áður var talað um sem markaða tekjustofna Samgöngustofu samkvæmt fjárlögum. Það eru umferðaröryggisgjald, leyfis- og eftirlitsgjöld af flutningum á landi, leyfisgjöld vegna leigubifreiða, útgáfa lofthæfisskírteina og skráningargjöld ökutækja og fleiri slíkir þættir sem eru innheimtir af Samgöngustofu. Það er tekjustofn sem rennur beint í ríkissjóð.

Gjöld Samgöngustofu eru fyrst og fremst rekstrargjöld og að mestu leyti launakostnaður. Í þessari tillögu er gerð grein fyrir því hvernig kostnaðurinn skiptist niður á helstu lögbundnu verkefni stofnunarinnar og gerð grein fyrir almennum verkefnum í samræmi við áherslur sem verður unnið að innan ramma fjárheimilda. Samgöngustofa fer með stjórnsýslu samgöngumála og þá í þessu víða samhengi.

Síðan er fjallað töluvert um forvarnir og öryggisáætlanir. Eitt af því sem mér þykir mjög mikilvægt að leggja áherslu á er öryggi og forvarnir. Ég held að það hafi ekki verið fjallað um forvarnir í því sem lá til grundvallar heildstæðri stefnu um almenningssamgöngur milli byggða, enda er það kannski svolítið öðruvísi plagg.

Innan þessarar forvarna- og öryggisáætlunar er fjallað um flugöryggi, siglingamálaáætlun og umferðaröryggisáætlun og þetta er nokkuð ítarlegt og farið niður í minni þætti eins og að fjölga útskotum fyrir ferðamenn sem við verðum öll vör við að hefur skort á. Það er svo lögreglan sem skipuleggur umferðareftirlit. Síðan hefur Samgöngustofa eftirlit með og annast úttektir á starfsleyfum, m.a. í flugstarfsemi og öllu sem tilheyrir flugi, t.d. Veðurstofu Íslands og Isavia. Það er því margt hér sem er tilgreint. Einnig hefur Samgöngustofa eftirlit með erlendum aðilum. Hér er talað um hafnarríkiseftirlit sem tekur m.a. til mönnunar á erlendum kaupskipum sem koma hér að landi. — Ég sé að tími minn er á þrotum og ég bið hæstv. forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.