150. löggjafarþing — 123. fundur,  23. júní 2020.

sorgarorlof foreldra.

653. mál
[11:43]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Brynjar Níelsson) (S):

Hæstv. forseti. Ég er afar glaður að heyra að félagsmálaráðherra er að skoða þessi mál. Það þarf auðvitað að skoða þau í víðara samhengi. Ég tel sjálfur að til að mynda við missi maka, þar sem börn eru á heimili, gæti skipt miklu máli að hjálpa til við þær aðstæður. Ég lít svo á að það séu raunverulega samfélagslegir hagsmunir að fólk nái að glíma við áfallið til framtíðar. Ég er út af fyrir sig alveg sammála því að það þarf að íhuga málið vel og skoða, jafnvel taka það í einhverjum skrefum. En ég met það samt svo að það sé nauðsynlegt og kostnaðurinn sé óverulegur og jafnvel það mikill hagur í því, að það margborgi sig og að allur kostnaður komi vel til baka.

Af því að það kom hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni mjög á óvart að fyrirspurnin kæmi frá mér get ég alveg upplýst það að í mínum fyrri störfum voru mál af þessu tagi á mínum borðum og maður fann hve erfitt og þungbært þetta var og mikið raunverulegt tjón, bæði fjárhagslegt og andlegt. Ég ítreka að ég lít á það sem mikla samfélagslega hagsmuni að farið verði í þessa vinnu.