150. löggjafarþing — 124. fundur,  23. júní 2020.

fimm ára samgönguáætlun 2020-2024.

434. mál
[12:11]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég verð í síðustu ræðu minni, í bili alla vega, að fjalla sérstaklega um borgarlínu, það mikilvæga málefni. Þó að við séum að ræða samgönguáætlun vil ég víkja sérstaklega að borgarlínu vegna þess að gríðarlegir fjármunir eiga að fara úr ríkissjóði í það verkefni. Það er þrennt sem ég vil koma sérstaklega inn á.

Í fyrsta lagi tel ég óforsvaranlegt að ráðast í svo kostnaðarsamt verkefni vegna efnahagsástandsins og stöðu ríkissjóðs. Ríkissjóður er rekinn með allt að 300 milljarða kr. halla og menn ætla sér svo að leggja út fyrir verkefni eins og borgarlínu upp á tugi milljarða kr. Sveitarfélögin sem standa að verkefninu eiga í mesta basli með að standa undir lögbundinni þjónustu vegna afleiðinga sem veirufaraldurinn hefur haft á fjárhag þeirra. Reykjavíkurborg hefur til dæmis óskað eftir fjárhagsaðstoð frá ríkissjóði vegna veirufaraldursins. Fulltrúar hennar komu fyrir fjárlaganefnd og óskuðu eftir fjárhagsaðstoð. Ég held að það sé algerlega raunhæft að ýta þessari borgarlínu út af borðinu, einfaldlega vegna stöðu efnahagsmála.

Í öðru lagi vil ég ræða aðeins nýtingu samgöngumátans borgarlínu. Þetta er ótrúlega mikil fjárfesting, sérstaklega í ljósi þess hver staðan í almenningssamgöngum er. Í dag nýta um 4% borgarbúa sér þennan samgöngumáta. Danska ráðgjafarfyrirtækið COWI hefur staðfest að eftirspurn eftir borgarlínu sé ekki nægileg, að grípa þurfi til sérstakra aðgerða til að efla eftirspurn. Og í hverju felast þær? Jú, þær felast í því að þrengja að fjölskyldubílnum. Í raun og veru á að neyða borgarbúa til að nota þetta nýja strætisvagnakerfi.

Okkur í Miðflokknum hugnast ekki að menn ætli að fara í einhverja neyslustýringu hvað þetta varðar. Sá fórnarkostnaður sem liggur í þessu er að þrengt er að fjölskyldubílnum með ýmsum hætti. Þau umferðarmannvirki sem bifreiðaeigendur geta nýtt sér verða minnkuð. Akreinar fyrir einkabílinn verða lagðar niður til að koma borgarlínunni fyrir. Þetta er algerlega óforsvaranlegt í ljósi þess að Reykjavíkurborg hefur verið hönnuð sem borg sem snýst fyrst og fremst um umferð akandi bíla og náttúrlega gangandi vegfarendur o.s.frv. Að ætla sér að setja nýtt samgöngukerfi ofan í þetta er hægara sagt en gert. Það er allt of kostnaðarsamt og mun engan veginn nýtast með þeim hætti sem æskilegt er. Það hefur bara sýnt sig að Íslendingar hafa aldrei verið sérstaklega áfjáðir í að nýta sér strætisvagnakerfið.

Að síðustu vil ég nefna þá tæknibyltingu sem er handan við hornið. Sjálfkeyrandi rafmagnsbílar verða komnir á göturnar innan ekki svo langs tíma, mun skemmri tíma en við gerum okkur grein fyrir. Rafmagnsbílavæðingin er á mikilli hraðferð. Þá erum við komin að umhverfisþættinum. Það verður mun umhverfisvænna að vera á götum borgarinnar en í dag. Það verða ekki bara strætisvagnarnir sem koma til með að nýta rafmagn heldur einnig rafmagnsbílarnir.

Í veirufaraldrinum höfum við svo sannarlega séð breytt hegðunarmynstur almennings. Fólk er farið að vinna heima og það verður aukning á því. Það mun ferðast til og frá vinnu á mismunandi tímum. Það verður ekki þessi álagspunktur á milli átta og níu á morgnana og fjögur og fimm í eftirmiðdaginn. Fram undan eru samfélagslegar breytingar sem gera það að verkum að umferðarflæðið, sem menn hafa svo miklar áhyggjur af í framtíðinni, verður kannski ekki eins mikið og ætla mætti vegna þess að mörgum hugnast að vinna heiman frá sér. Það er framtíð í því fyrirkomulagi, síðast en ekki síst í þeirri miklu tæknibyltingu sem er handan við hornið.

Herra forseti. Ég hef farið yfir þrjá mikilvæga þætti sem ég tel vera augljósa ástæðu fyrir því að ýta þessu borgarlínuverkefni algerlega til hliðar og leggja það niður. Það er hægt að fara í mun ódýrari aðgerðir, mislæg gatnamót, laga stofnbrautir o.s.frv. sem munu bæta umferðarflæðið verulega.