150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:19]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég er nú bara að fara yfir frumvarpið, hv. þingmaður, yfir nokkur atriði í frumvarpinu. Ég sé ekkert óeðlilegt við að ég komi þá aðeins inn á það sem ég hef nefnt áður þegar ég ræddi sérstaklega samgönguáætlun og borgarlínu. Það eru hér margir liðir. Það er rætt um skilvirkni, hagkvæmni, loftslagsmarkmið, umferðaröryggi. Þetta er allt í frumvarpinu, hv. þingmaður. Það er ekkert óeðlilegt að ég ræði það hér í umræðunni. Mér finnst t.d. nauðsynlegt að gera breytingar, ég er bara ekki komin svo langt, við bæði 6. gr. og 7. gr. Svo hefði ég viljað sjá nýja fyrirsögn á 8. gr. og ég er líka með athugasemdir við 9. gr. Það er margt í þessu frumvarpi sem ég hefði viljað fara ítarlega yfir og ég ítreka aftur, hv. þingmaður, að hér er gríðarlega stór og mikil fjárskuldbinding fram undan af hálfu ríkissjóðs sem varðar tugi milljarða. Það er fullkomlega eðlilegt að við förum vel yfir það. Ég persónulega, sitjandi í fjárlaganefnd, gerði athugasemdir við ýmislegt í frumvarpinu innan nefndarinnar og nú erum við komin í þingsal að fara yfir þetta þannig að ég tel mig eiga fullan rétt á því að fara nákvæmlega yfir það. Ef það dregst eitthvað á langinn að fara yfir þetta mál þá verður bara að vera svo. Þetta eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir og við erum öll gæslumenn ríkissjóðs og eigum að fara vandlega yfir hvað má betur fara o.s.frv. Ég held að hv. þingmaður hljóti að vera sammála mér um það.