150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:28]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Þetta er nákvæmlega það sem ég var að ræða áðan þegar ég talaði um skilvirknina. Þetta snýst náttúrlega töluvert um það, hv. þingmaður, hversu margir koma til með að nýta þennan samgöngumáta og þar er verið að renna algjörlega blint í sjóinn. Hv. þingmaður þekkir vel þessa umræðu. Það er búið að reyna að fjölga þeim sem nota almenningssamgöngukerfið á höfuðborgarsvæðinu og búið að setja óhemjupeninga í það. En þetta hefur ekki skilað neinum árangri svo heitið geti og þess vegna hefur maður verulegar áhyggjur af því.

Það kemur einmitt fram í skýrslu danska ráðgjafarfyrirtækisins að það verði einfaldlega að ráðast í róttækar aðgerðir til að fjölga þeim sem nýta þennan samgöngumáta vegna þess að eftirspurnin eins og hún er núna verður ekki nægileg. Í því felst að það er bara lógískt þegar við erum með óhemjukostnaðarsaman samgöngumáta og erum að leggja upp í þá vegferð þegar það er mjög óljóst hversu margir koma til með að nýta þann samgöngumáta, þá er náttúrlega ekki skilvirkni í því og heldur ekki miklir jákvæðir umhverfishvatar hvað það varðar. Ég held að það sé nokkuð ljóst að þetta er einn af stóru þáttunum í málinu, að til þess að þetta verkefni gangi upp þarf að þrefalda þann fjölda sem á að ferðast með þessum vögnum. Það er hægara sagt en gert, hv. þingmaður, og fyrir því liggja ekki nægilega haldbær gögn hvernig það muni ganga eftir. Og af því að hv. þingmaður nefndi sérstaklega rannsóknir í þeim efnum þá liggur þetta ekki fyrir.