150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[11:59]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að mótmæla því að eitthvert ósamkvæmni sé milli þess að hafa fyrirvara um gjaldtöku úti á landi og hugmyndarinnar sem hér er varpað fram. Við munum auðvitað leggjast gegn þeirri gjaldtöku á höfuðborgarsvæðinu sem við teljum að eigi ekki rétt á sér. Ég held að aðgerðir eins og Sundabraut séu prýðilega til þess fallnar að fara í einhvers konar gjaldtöku og einkaframkvæmd vegna þess að það er greið leið fram hjá. Ég hef mínar efasemdir um leiðir þar sem eina gátt fjarðar, eins og Seyðisfjarðar, að umheiminum er í gegnum göng. Ég get aldrei sætt mig við gjaldtöku við slíkar aðstæður. Mér finnst það ekki eðlilegt.

Auðvitað hef ég áhyggjur, hv. þingmaður, af öllum kostnaði, jafnt þessum sem auðvitað þeim umframkostnaði sem á sér stað mjög víða og í gatnakerfinu um allt land. Við höfum séð margar framkvæmdir fara allt of mikið fram úr áætlun og við ættum kannski að vanda alla áætlunargerð betur en við höfum gert. En það á ekki bara við um þessa framkvæmd.