150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni öndvegisræðu. Það voru nokkrir punktar þar sem mér fannst rökin vera á reiki. Hann vitnaði til borganna Kaupmannahafnar, Gautaborgar, Stokkhólms og Óslóar þar sem íbúar eru frá 600 þúsund til milljón. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvað á Reykjavík sameiginlegt með þessum borgum? Hv. þingmaður sagði réttilega að þar hefðu þessar „samgöngubætur“ verið teknar upp.

Þá langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi kynnt sér það sem hefur gerst í Álaborg í Danmörku sem er borg af svipaðri stærð og Reykjavík. Þar er engin borgarlína og hún er ekki fyrirhuguð. Þeir hafa hætt við áætlanir sínar um léttlest en þeir eru með alvörustrætisvagnakerfi þar sem strætisvagnar eru með mikla ferðatíðni og þéttriðið net.

Hv. þingmaður sagði í síðasta andsvari sínu að okkur hefði hætt til þess að gera ekki nógu góðar áætlanir. En í þessu tilfelli sagði hv. þingmaður: Við viljum vinda okkur í þetta. Okkur í Miðflokknum finnst áætlunargerðin í þessu ekki upp á marga fiska, að það vanti mjög margt inn í þannig að menn geti t.d. gert sér grein fyrir því hvort þessi kostnaðaráætlun kemur til með að standast, þeir sirka 50 milljarðar sem ríkissjóður ætlar að láta af hendi með því að selja helsta gimsteininn í krúnunni, þ.e. Keldnalandið. Mig langar í fyrsta lagi til að spyrja hv. þingmann út í þetta með borgirnar og í öðru lagi með áætlunargerðina, hvort honum finnist áætlunargerðin og það sem liggur fyrir okkur þingmönnum núna duga til þess að segja: Heyrðu, vindum okkur í þetta.