150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:05]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Bara svo að það sé skýrt þá er Miðflokkurinn fylgjandi almenningssamgöngum. Eitt af baráttumálum flokksins í síðustu borgarstjórnarkosningum var: Frítt í strætó. Mér þykir hins vegar miður að hv. þingmaður skuli ekki hafa kynnt sér Álaborgardæmið vegna þess að þar erum við að tala um borg sem er sambærileg Reykjavík. Það sem ég hef kannski lagt áherslu á, og vildi þess vegna fá fram í þessari spurningu, er það að ég hefði talið æskilegt að við færum svipaða leið og þeir í Álaborg, þ.e. að við myndum reyna að nýta strætisvagnakerfið sem við höfum, reyna að bæta það, í staðinn fyrir að ætla að spara með því að eyða 50 milljörðum — eins og hv. þingmaður er að leggja til og segir að við spörum við það. Í blöðum í gær kom loksins fram að rekstrarkostnaður við borgarlínu sé meira en 2 milljarðar á ári. Þá ætla ég að spyrja hv. þingmann: Hvar erum við að spara þegar 2 milljarðar í rekstrarkostnað bætast við og 50 milljarðar bara frá ríkinu í uppbyggingarkostnað?