150. löggjafarþing — 126. fundur,  24. júní 2020.

heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

735. mál
[12:08]
Horfa

Frsm. minni hluta fjárln. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu. Ég verð þó að segja það fyrst að ég er ekki sammála hv. þingmanni um að fjölskyldubíllinn á götum Reykjavíkur sé stórkarlalegur. Það er nú bara einfaldlega þannig að margar fjölskyldur þurfa svo sannarlega á bílnum að halda, t.d. til að aka börnum í leikskóla o.s.frv. í misjöfnum veðrum þannig að ég mótmæli þessari nálgun hv. þingmanns.

Ég vil einnig koma inn á það sem hv. þingmaður nefndi. Hann fór svolítið yfir stórborgir í Bandaríkjunum og nú hef ég búið í Bandaríkjunum og þekki vel hvernig er að vera á götum borganna þar. Ég bjó rétt fyrir utan Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, og þar eru gríðarleg umferðarmannvirki og ég held að það sé engan veginn sambærilegt að nefna Reykjavíkurborg í því samhengi. Reykjavíkurborg er nú bara eins og lítill sveitavegur í samanburði við þessar stórborgir í Bandaríkjunum.

Hv. þingmaður horfði aðeins til framtíðar, og það er gott. En hvað finnst hv. þingmanni um þessar gríðarlegu breytingar, tæknibyltinguna og annað sem fram undan er, sjálfkeyrandi bíla og svo það líka, sem við sjáum sérstaklega nú í veirufaraldrinum, að fólk er farið að vinna meira heima, fjarvinna og notkun fjarfundabúnaðar færist í vöxt og fólk mun þá ekki ferðast jafn mikið fram og til baka til vinnu? Í farvatninu eru gríðarlegar samfélagsbreytingar og svo tæknibreytingar. Verðum við ekki að horfa til þess, hv. þingmaður, þegar lagt er í svo gríðarlega kostnaðarsamt verkefni eins og þetta verkefni er?